145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:06]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Ég tek til máls í fyrsta sinn í umræðu um þetta frumvarp. Ég hafði ekki tækifæri til þess að taka þátt í umræðu á síðasta þingi þegar þetta frumvarp var fyrst lagt fram svo ég taldi mig ekki geta látið hjá líða að taka til umræðu um þetta stóra mál. Ég vil fyrst gera athugasemdir við það að gerðar séu athugasemdir yfirleitt við að þetta mál sé til umræðu á Alþingi, eins og hefur komið fram í máli nokkurra hv. þingmanna. Það er svo sem ekki einungis hér innan þingsalar því að ég held að margir þingmenn hafi orðið varir við eða fengið veður af því og jafnvel verið haft samband við þá beint af almenningi þar sem lýst er þeirri skoðun eða hneykslan á því að þetta mál sé til umræðu og hefðbundnir frasar hafðir uppi um að spurninguna um hvort þetta sé virkilega forgangsmál á Alþingi.

Þetta er afstaða sem margir taka alltaf þegar þessi mál koma til umfjöllunar, hvort sem er á Alþingi eða utan þingsalarins. Allt frá árinu 2000 þegar menn fóru fyrst að ljá máls á breytingu á fyrirkomulagi einkasölu ríkisins á áfengi hefur þetta verið afstaða sem mjög margir hafa tekið um leið og hafa ekki viljað ljá máls á nokkru málefnalegu í umræðu um málið sjálft, sem er afnám einkasölu ríkisins á sölu áfengis.

Virðulegi forseti. Ég tel þetta mál svo sannarlega verðugt umræðu í þessum þingsal og tel það ekki furðulegt, sem sést á því hversu löng mælendaskráin er um þetta mál. Þetta er nefnilega stórmál. Það varðar einn af hornsteinum þeirra mannréttinda sem við frjálslyndir menn viljum standa vörð um og það er einstaklingsfrelsið, það er frelsi einstaklingsins til þess að ráða lífi sínu, hvort sem það lýtur að því að kaupa áfengi eða selja það. Það er frelsi einstaklingsins í víðu samhengi með allri þeirri ábyrgð sem því frelsi fylgir.

Virðulegi forseti. Ég árétta að við sem höfum haldið hér á lofti mikilvægi þess að staðinn sé vörður um frelsi einstaklingsins og viðskiptafrelsi, en viðskiptafrelsi er auðvitað hluti af einstaklingsfrelsi, drögum ekki dul á að því frelsi fylgir ábyrgð. Í þessu máli endurspeglast sú ábyrgð ekki síst í því að menn beri nokkra ábyrgð á hegðun sinni, lífi sínu og heilsu. Undan því getur einstaklingurinn ekki vikist og ekki reitt sig eingöngu á hinn breiða faðm ríkisvaldsins þótt mjúkur sé.

Þá er þetta mál þess eðlis að ég tel ekki nokkra þörf á því að einhver utan þings kalli sérstaklega eftir því til þess að það komi til umræðu. Þetta mál stendur alveg fullburðugt undir sjálfu sér og er auðvitað þess eðlis að það er ekki skrýtið að einstakir þingmenn beri það upp til umræðu.

Í umræðu um þetta mál hafa ýmsar fullyrðingar verið settar fram. Margir hafa komið með þverhandarþykkar skýrslur, veifað þeim framan í þingsal, vísað í þær máli sínu til stuðnings. Ég verð að segja að þessar fullyrðingar eru margar hverjar, ef ekki flestar, ansi digurbarkalegar. Þetta eru fullyrðingar um aukningu ofbeldis og unglingadrykkju og aukningu krabbameins. Vandi heimavinnandi húsmæðra var reifaður í nokkru máli og þær taldar sérstaklega útsettar fyrir áfengisvandanum ef áfengi yrði selt í matvöruverslunum. Konur eru tilteknar sem áhættuhópur vegna aukinna krankleika. Spurt var í andsvari áðan hvort ekki væri hætta á auknum á kynferðisafbrotum ef þetta frumvarp næði fram að ganga.

Þetta eru allt fullyrðingar og hugmyndir sem ég átta mig ekki alveg á hvernig tengjast beint efni þessa frumvarps. Ég árétta að efni frumvarpsins lýtur að einu afnámi á einni tegund af rekstrarformi, það lýtur ekkert að sölu á áfengi eða aukningu á sölu á áfengi eða takmörkunum á áfengi heldur aðeins að því að hér er lagt til að ríkisvaldið hætti að selja áfengi og einkaaðilar selji það, eins og með aðrar vörur.

Vísað er í rannsóknir á ýmsum fylgifiskum aukinnar neyslu áfengis og þeirri umræðu fylgir ekki útlistun á því hvernig þessi breyting á rekstrarfyrirkomulagi, á verslunarformi, tengist aukinni áfengisneyslu.

Það þarf náttúrlega að skoða aðgengi að áfengi í dag, hvernig það er. Menn þurfa að átta sig á því hvernig aðgengið er í dag. Aðgengi að áfengissölu hefur aukist gríðarlega undanfarin ár. Þá er áfengissalan, bendi ég á og árétta, eins og við þekkjum öll, í höndum ríkisins. Áfengisverslununum sjálfum hefur fjölgað gríðarlega. Þær eru núna álíka margar og verslanir stærstu matvörukeðjunnar á Íslandi.

Ríkið hóf fyrir nokkrum árum að selja áfengi gegnum internetið. Það er hægt að kaupa áfengi frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins á internetinu. Bjórinn var leyfður hér fyrir mörgum árum og veitingastöðum fjölgar í hverjum mánuði, a.m.k. á stór-höfuðborgarsvæðinu. Allt þetta lýtur auðvitað að auknu aðgengi að áfengi. Það er því ekki hægt að halda því fram með nokkrum rökum, að mínu mati, að ríkið hafi sérstaklega lagt sig í líma við að takmarka aðgengi að áfengi, að áfengissölunni.

Ég nefni annað dæmi. Í dag kallast verslanir Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins Vínbúðir. Það þykir mjög gamaldags en ég kalla þær alltaf ÁTVR. Ef ég þarf að fara þangað og fer á atvr.is leiðir sú heimasíða mig strax inn á heimasíðu sem heitir vinbudin.is. Allt er þetta hluti af ákveðinni markaðssetningu í þeim tilgangi að auka aðgengi og draga úr þeim óþægindum sem margir finna fyrir við það að versla áfengi í einhvers konar sérvöruverslun á vegum ríkisins.

Nú stendur yfir verkfall SFR, verkfall starfsmanna sem m.a. í eru starfsmenn ÁTVR verslunarinnar. Hvað gerist? Verslunin tekur sjálf, ríkið tekur sjálft ákvörðun um að tryggja að þetta verkfall skerði ekki aðgengi manna að áfengi og var sérstaklega auglýst svokölluð föstudagsopnun í þessum vínbúðum í gær, á miðvikudegi, föstudagsopnun var auglýst á miðvikudegi. Allt er þetta til þess að tryggja aðgengi að víninu.

Hitt ber þó að nefna að aðgengi að verslunum er takmarkað að einu leyti og það er aðgengi vínframleiðenda að hilluplássi í verslunum ÁTVR. Það er verulega takmarkað með margvíslegum íþyngjandi reglum sem koma verst við litla framleiðendur, af því að þeir hafa verið til umræðu í dag, litlir vínframleiðendur eða lítil brugghús sem óttast að nái þetta frumvarp fram að ganga verði aðgengi þeirra að hilluplássi skert. Þá minni ég á það að aðgengi að hilluplássi er í dag mjög skert og eru sífelldar deilur uppi um innkaupareglur ríkisins yfir höfuð.

Lýðheilsusjónarmið hafa verið til umræðu. Því hefur verið haldið fram að ríkisstjórnin ætli ekki að standa við yfirlýsingar sínar um lýðheilsusjónarmið úr því að þetta frumvarp er á dagskrá, flutt af m.a. hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni úr Sjálfstæðisflokknum. Þessi skoðun stenst auðvitað ekki nokkra skoðun. Lýðheilsusjónarmiðum er einmitt haldið til haga í frumvarpinu með ákvæðum um ákveðnar reglur, ákveðna umgjörð, um aðgengi að áfengisverslunum og alls kyns skilyrðum um veitingu smásöluleyfis ef til kemur. Það er því ekki hægt að halda öðru fram en að flutningsmenn þessa frumvarps geri sér fulla grein fyrir því að lýðheilsusjónarmið eru til staðar og það er enginn sem hefur áhuga á því að rugga þeim báti í því augnamiði að fela einkaaðilum sölu á áfengi. Ég bendi á að í frumvarpinu er meira að segja gert ráð fyrir verulegri hækkun á framlagi í lýðheilsusjóð sem innheimt er með áfengisgjaldi.

Hvað lýðheilsusjónarmiðin varðar hlýt ég að spyrja: Er aðild að BSRB einhvers konar lýðheilsusjónarmið? Hvernig má það vera að ef sá sem afgreiðir áfengið yfir kassann tilheyrir stéttarfélagi BSRB sé það einhvers konar vörn gegn aukningu á krabbameini eða unglingadrykkju eða þar fram eftir götunum, eða lýðheilsusjónarmiðum? Snýst þetta um stéttarfélagsaðild þess sem afgreiðir áfengið? Þetta hljómar þannig. Frumvarpið lýtur aðeins að því að afnema einkarétt ríkisins á að selja áfengi.

Ég verð að nefna það að sjálft ÁTVR styður ekkert sérstaklega við lýðheilsumarkmið ef lýðheilsumarkmiðið er að draga úr neyslu á áfengi. ÁTVR hefur með höndum gríðarlega markaðssetningu á áfengi, gefur út uppskriftabæklinga, parar saman vín með mat, auglýsir afgreiðslutíma verslananna í gríð og erg, bæði í sjónvarpi og dagblöðum. Ef lýðheilsumarkmiðið er að draga úr neyslu sé ég ekki hvernig þetta styður það markmið.

Mikilvægast þó hvað lýðheilsumarkmiðin varðar er að eins og kerfið er í dag er það ein ríkisstofnun sem hefur eftirlit með annarri ríkisstofnun í þessum málum. Það er ríkið sem selur áfengi en annarri eftirlitsstofnun, eins og Lýðheilsustöð, er falið að reyna að draga úr sölu á áfengi. Markmið þessara tveggja stofnana stangast á.

Að mínu mati á það að vera hlutverk eftirlits- og forvarnastofnanna að hlúa að lýðheilsu, og ekki bara eftirlits- og forvarnarstofnanna á vegum hins opinbera, en það er auðvitað fyrst og fremst hlutverk einstaklinganna. Það er einstaklingurinn sjálfur sem þarf að bera ábyrgð á heilsu sinni, það er heimilanna að bera ábyrgð á lýðheilsu barna sinna og það getur aldrei verið svo að ríkið sé best til þess fallið heldur þvert á móti.

Að lokum vil ég nefna að mér finnst skjóta skökku við sú röksemdafærsla margra hv. þingmanna sem hér hafa talað að þegar þeir vísa til lýðheilsusjónarmiða og reyna að spá fyrir um hvað muni gerast ef þetta frumvarp nær fram að ganga þá spá þeir því að úrvalið muni minnka, að verðið muni hækka en samt að neyslan muni aukast. Hvernig má það vera? Þetta finnst mér (Forseti hringir.) ótrúlegt að gerist, en það kann þó allt að vera.