145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:31]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Sigríðar Á. Andersen og hlustaði sérstaklega með athygli einmitt vegna þess að við hv. þingmaður lítum það þingmál sem hér er til umræðu, þ.e. frumvarp um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, mjög ólíkum augum. Ég hef oft héðan úr ræðustól kallað eftir því að hér fari fram meiri skoðanaskipti þar sem ólík sjónarmið eru reifuð. Að því leytinu til fannst mér áhugavert að hlusta á ræðu hv. þingmannsins.

Í ræðunni kom fram að hv. þingmaður lítur svo á að frumvarpið lúti bara að söluforminu. Það er jú einmitt það sem við höfum verið að takast á um og höfum svo ólík sjónarmið á og meðal annars það sem ég gerði að umtalsefni í ræðu minni um málið var að söluformið skipti einmitt máli vegna þess að áfengi er engin venjuleg neysluvara og það eigi þess vegna ekki að selja í „venjulegum búðum“. Þess vegna finnst mér eðlilegt að söluformið á því sé sérstakt.

Mig langar því í fyrra andsvari mínu að spyrja hv. þingmann: Lítur hún svo á að áfengi sé eins og hver önnur neysluvara, eins og raunar má lesa út úr greinargerðinni sem fylgir frumvarpinu, en er þó annað eins og kom fram í máli hæstv. 1. flutningsmanns málsins?