145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:38]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér kann auðvitað að vera einhver misskilningur á ferðinni milli okkar hv. þingmanns og reyndar kannski þeirra sem vísa í skýrslur um afleiðingar þess ef frumvarpið nær fram að ganga. Nú hef ég ekki lesið þær allar, verð að viðurkenna það. Einhverjar af þeim skýrslum fjalla um afleiðingar þess að auka aðgengi að áfengi. En ég yrði mjög hissa ef ég sæi þá skýrslu sem staðhæfði það að einokunarverslun ríkisins mundi draga úr skorpulifur eða krabbameini eða öllum þeim sjúkdómum sem er búið að þylja hér upp að ríði hér yfir land og þjóð ef frumvarpið nær fram að ganga. En ef lykilatriðið er með hvaða hætti verslunin er rekin, af hverju tala menn þá ekki fyrir því að ríkið fari að selja kökur og sælgæti? Það er þó það vandamál sem er miklu stærra í okkar þjóðfélagi, það er kökuátið og sælgætisátið hjá okkur nammigrísunum. Menn hafa reynt að stemma stigu við því með því að takmarka aðgengi að sælgæti. Menn þekkja það þegar þeir fara í matvöruverslun að því er stillt upp fyrir framan mann þegar maður er að bíða í biðröð á kassanum. Kallað hefur verið eftir því að verslunin færi það sælgæti frá. Það er svona liður í því að takmarka aðgengi að vörunni. Það er sjálfsprottið hjá mörgum verslunum. Þannig á það að vera. Það er sjálfsprottið. Það er svar við kröfu markaðarins.

En ef menn trúa því virkilega að rekstrarformið á sölunni skipti máli þá hljóta menn að leggja það til að ríkið taki í sínar hendur sölu á jafnvel skaðlegri efnum en áfengi sem selt er í matvörubúðum.