145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:40]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að senda öllu því fólki sem berst fyrir betri kjörum og mætti á Austurvöll í dag baráttukveðjur og vona svo sannarlega að það nái þeim markmiðum sínum að eitthvað annað verði hér á borðum Alþingis en brennivín í búðir.

Ég ætla í síðari ræðu minni að fara aðeins í gegnum grein sem Róbert H. Haraldsson hefur ritað og er ágætisinnlegg í þessa umræðu okkar. Eins og hér hefur komið fram hefur verið spurt hver kallar á þetta mál þegar komið hefur fram að 70% þjóðarinnar hafa engan sérstakan áhuga á því að fá áfengi í verslanir. Það er alveg rétt að hverjum og einum er frjálst að leggja fram mál hér á þingi. En auðvitað veltir maður því fyrir sér hver tilgangurinn sé þegar það kerfi sem er við lýði í dag er hreint ágætt og virðist að minnsta kosti ekki trufla stóran hluta þjóðarinnar. Auðvitað felur núverandi kerfi í sér skerðingu á verslunarfrelsi. Það dregur enginn dul á það, en ég tel að það sé af hinu góða og það hafi verið rökstutt með margvíslegum hætti hvers vegna það sé heppilegra. Mér finnst líka ágætt fyrir okkur að fá fram þessi rök, við sem höldum stundum að við séum öðruvísi en annað fólk og það eigi við okkur það sem hentar hverju sinni þegar kemur að rannsóknum eins og hefur t.d. komið fram í máli flutningsmanns þegar hann rökstyður sumt í tillögunni sinni með því sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sagt, en kýs að líta fram hjá öðru.

Það eru mörg ríki og lönd sem ekki leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum og eru þó ágætlega nútímaleg samfélög. Bent er á Pennsylvaníu-ríki í Bandaríkjunum sem er 39 sinnum fjölmennari en Ísland og telst vera nokkuð nútímalegt samfélag þar sem einstaklingsfrelsi og lýðræði er í hávegum haft, það hefur þessa skerðingu á sölu áfengis.

Það er mikilvægt að við skoðum þau lönd sem hafa komið illa út úr því að gefa sölu á áfengi frjálsa eins og t.d. Bretland. Í Bretlandi árið 2012 var fjöldi áfengisútsölustaða kominn í 51 þúsund og ríflega það þegar bætt er við stöðum þar sem má neyta áfengis. Nú tala Bretar um áfengisfaraldur þar sem bæði er vitnað til blaðaskrifa og skýrslna stjórnvalda og frjálsra félagasamtaka. Það hefur komið fram stefnuskjal þverpólitísks þingmannahóps þar sem kemur fram að um 1,2 milljónir Breta eru lagðar inn á spítala vegna áfengis og á hverri klukkustund deyr einn Breti úr áfengisneyslu. Kostnaður breska samfélagsins vegna þessa eru rúmir 4 milljarðar íslenskra króna.

Hér var hneykslast svolítið á því að verið væri að tengja heimilisofbeldi við áfengisneyslu og þá tilhögun sem lögð er til í frumvarpinu en það er auðvitað ekki hægt að horfa fram hjá því að með auknu aðgengi er gert ráð fyrir aukinni neyslu og það segir svo í sjálfu frumvarpinu. 37% tilvika heimilisofbeldis í Bretlandi verða þar sem gerandi er undir áhrifum áfengis og 44% af öðrum ofbeldisglæpum. Kostnaður réttarkerfisins vegna áfengisneyslu er talinn rúmir 2 þús. milljarðar íslenskra króna og fyrir þá upphæð mætti ráða í kringum 260 þúsund lögreglumenn.

Það er margt hér sem vert er að líta eftir en flutningsmenn hafa svolítið verið að segja að við eigum bara að heimfæra þetta upp á íslenskan veruleika. Samkvæmt því sem flutningsmenn segja er hann einhvern veginn allt annar en allar rannsóknir sýna þegar kemur að lýðheilsu eða reynslu annarra þjóða. Við nýtum okkur erlendar rannsóknir þegar um er að ræða lýðheilsu yfirleitt eða sjúkdóma eða eitthvað slíkt og heimfærum þær yfir á íslenska þjóð. Því skyldi það ekki vera hægt í þessum málum eins og öðrum? Það er bara hræsni að mínu viti að halda öðru fram.

Virðulegi forseti. Tíminn er auðvitað afskaplega stuttur. Í lok þessarar greinar kemur höfundur inn á að bjór og léttvín og sterk vín verði seld í matvöruverslunum þar sem börn og ungmenni venja komur sínar oft í viku. Þess vegna verðum við að horfast í augu við það að ef frumvarpið nær fram að ganga þá erum við að fjölga útsölustöðum meira hlutfallslega séð en Bretar hafa gert síðastliðin fimm, tíu ár. (Forseti hringir.) Reynsla þeirra sem ég hef hér rakið á hraðbergi hlýtur (Forseti hringir.) að vekja okkur til umhugsunar og sýna okkur að það er engan veginn (Forseti hringir.) ásættanlegt að menn ætli sér að ganga fram með þessum hætti.