145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:49]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem hér komu fram í máli hv. þingmanns. Ég held að við eigum það sameiginlegt sem erum andvíg frumvarpinu að við erum fæst hver að tala fyrir því að fólk fái ekki aðgengi að áfengisverslun, síður en svo. Við erum flest á því máli að það eigi að vera sem jafnast aðgengi óháð búsetu manna.

Það sem málið snýst hins vegar um er hversu ágengt þetta aðgengi eigi að vera. Það er allt önnur spurning. Á að hafa þessa vöru eins og hverja aðra matvöru eða við hlið almennrar matvöru í matvöruverslun? Um að snýst þetta mál og að hvaða marki eigi að virkja ágeng markaðssjónarmið við að koma áfengi á framfæri við þjóðina. Mér finnst mjög mikilvægt að gera greinarmun á þessu tvennu.

Síðan er það hitt hvað skuli til bragðs taka í lítilli byggð með eina matvöruverslun ef hún vill ekki hafa þessa vöru á boðstólum. Ég þekki dæmi þessa. Ég spurði hv. 1. flutningsmann frumvarpsins hvað væri þá til ráða. Hann kom ekki upp í ræðustól til að svara mér en kallaði úr sæti sínu: „Er þá ekki hægt að selja þetta í blómabúðinni?“ Það lýsir betur en flest annað hversu háð við yrðum duttlungum markaðarins hverju sinni. Við erum annars vegar að koma þessari vöru á markað og hins vegar að reyna að finna millileið þar sem markaðssetningin er ekki ágeng og þar erum við kannski komin að því (Forseti hringir.) sem ég byrjaði á að hrósa hv. þingmanni fyrir, (Forseti hringir.) það er grein Róberts H. Haraldssonar í Fréttablaðinu í gær (Forseti hringir.) þar sem hann talar um nákvæmlega þennan gullna veg.