145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:01]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það má líka spyrja sig: Ef sú er raunin, af hverju flytur þá ekki ríkisstjórnin þetta mál? Af hverju er þetta þingmannamál ef það er svona ofboðslega mikilvægt? UNICEF, Barnaheill og fleiri sem komu að því að stofna þennan hóp, talsmenn barna á þingi, minntu okkur á sáttmála Sameinuðu þjóðanna til þess svona knýja á um að við samþykktum ekki frumvarpið.

Hér er vitnað í ýmsar umsagnir. Hingað kom umsögn frá Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd sem undirrituð var af prófessor í félagsráðgjöf, Sigrúnu Júlíusdóttur, fyrir hönd þessarar stofnunar. Sú stofnun er mjög hörð gagnvart frumvarpinu og telur að við þurfum að halda vöku okkar þar því að ekki ríki einhugur um hugsjónir velferðarríkisins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fulltrúar fjármagns og gróðasjónarmiða hafa haft slík áhrif í samfélagi okkar undanfarið að þjóðarógn hefur stafað af — og gerir enn. Rökstuðningur fyrir þessu frumvarpi speglar verðmætamat og hagsmunaáherslur sem einkenna þessi sömu markaðsöfl.“

Síðar segir:

„Í rökstuðningnum koma fram sjónarmið sem eru í andstöðu við tilmæli alþjóðlegra heilbrigðisyfirvalda og nýsamþykkta stefnu íslenskra stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum.“

Svo segir aðeins síðar:

„Við nánari skoðun á tugum umsagna ábyrgra aðila til nefndasviðs Alþingis er auðvelt að sjá hvernig ólík gildi endurspeglast eftir því hvort ábyrg afstaða til manngildis eða fjárgróðasjónarmið liggja til grundvallar.“

Ég tek undir það og hef sagt að mér finnst þetta fyrst og fremst snúa að fáum, stórum markaðsöflum hér á landi sem ráða ríkjum þegar kemur að verslun, því að það eru engin önnur rök sem flutningsmenn hafa flutt fyrir þessu máli á þingi, a.m.k. ekki enn sem komið er.