145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:03]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim sem hafa talað í þessu máli og fagna því að hér sé svo mikil og umfangsmikil umræða um það. Ég vil hefja mál mitt á því að segja að ég skil ágætlega þau sjónarmið sem fram hafa komið hjá ýmsum í samfélaginu að þægilegt væri ef hægt væri að kaupa áfengi í matvöruverslunum. Um leið minni ég á að meiri hluti þjóðarinnar er ekki þeirrar skoðunar eins og fram hefur komið ítrekað í skoðanakönnunum. Ég skil þessi sjónarmið og var einu sinni á þeirri skoðun, þegar ég var yngri, án þess að hafa verið einhver hörð talskona þess að leggja niður Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins en þá taldi ég svolítið gamaldags að geta ekki gengið út í matvörubúð og keypt mér bjór eða léttvín. Ég er allsendsis annarrar skoðunar núna og ætla að rekja í stuttu máli af hverju ég skipti um skoðun. Ég vil líka taka það fram að þetta var mér ekki hjartans mál, þetta hélt ekki fyrir mér vöku. Ég aðhyllist það að samfélag okkar sé frjálslynt og mannúðlegt. Mér fannst það bera vott um afturhaldssemi að vera með sérverslun og einokun ríkisins á sölu áfengis.

Hvað gerðist síðan, hæstv. forseti? Það má segja að ég hafi smám saman farið að hugsa að það væri kannski bara voða þægilegt að hafa svona fyrirkomulag eins og við höfum. Það var líka þannig að þjónusta vínbúðanna jókst mikið. Þar er gott úrval og góð þjónusta og þær eru aðgengilegar. Síðan varð ég alþingismaður og fór í Norðurlandaráð og sat þar í velferðarnefnd sem var á þeim tíma leidd af íslenskum þingmanni, Siv Friðleifsdóttur. Hún sinnti þeirri formennsku af miklum sóma og lagði mikinn metnað í vinnu nefndarinnar. Við vorum með þema fyrir hvert ár í nefndinni og eitt árið vorum við með þema um áfengis- og tóbaksvarnapólitík. Þá var ég þeirrar gæfu aðnjótandi og kannski þeirra forréttinda að fá að heimsækja Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og hitta helstu sérfræðinga hennar á sviði tóbaks- og áfengisvarna.

Áfengi er gríðarlega stórt heilbrigðisvandamál í heiminum. Það hefur margvísleg þjóðhagsleg áhrif og auðvitað gríðarleg áhrif á lífsgæði fólks, ekki síst barna sem búa hjá foreldrum eða aðstandendum sem misnota áfengi. Það eru margar hliðar á því og fjölþætt krabbamein en ég ætla ekki að þylja skaðleg áhrif áfengis hér.

Það kom mjög skýrt fram í máli helstu sérfræðinga Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að tvær áhrifaríkustu forvarnirnar vegna áfengisvandamála væru stýrt aðgengi og verðlagning. Það væri ágætt að vera með upplýsingar og allt slíkt, en ef maður hefði það sem pólitískt markmið, lýðheilsumarkmið og heilbrigðismarkmið að draga úr áfengisneyslu og skaðsemi hennar þá væru aðalatriðin aðgengi og verðlagning. Þar var jafnframt bent á að Norðurlöndin, utan Danmerkur, væru í frábærri stöðu að vera með ríkiseiningu. Núna væru mörg ríki að leita leiða til þess að takmarka aðgengi að áfengi vegna vaxandi vanda af áfengisneyslu, en Norðurlandaþjóðirnar byggju flestar við þá forréttindastöðu að vera með einokunarstöðu ríkisins á sölu áfengis. Þeir töldu það til fyrirmyndar og hvöttu þá norrænu fulltrúa sem þarna voru í heimsókn frá Norðurlandaráði að standa vörð um þessa stefnu.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur náttúrlega unnið að stefnumótun í málaflokknum á undanförnum árum og áratugum og lagt mikla áherslu á að takmörkun á aðgengi sé lykilatriði. Hún hefur líka hvatt til þess að hvert og eitt ríki móti sér stefnu í áfengis- og vímuvörnum. Stefna okkar er glæsileg og þess vegna er leitt að hæstv. heilbrigðisráðherra telji ekki forgangsmál að vera hér og standa vörð um hana en í henni eru sex höfuðþættir sem ég ætla að fara yfir því að aldrei er góð vísa of oft kveðin. Í stefnunni er lögð áhersla á:

Að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum.

Að vernda viðkvæma hópa fyrir skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímugjafa.

Að koma í veg fyrir að ungmenni byrji að nota áfengi eða aðra vímugjafa.

Að fækka þeim sem þróa með sér skaðlegt neyslumynstur áfengis eða annarra vímugjafa.

Að tryggja aðgengi fólks, sem á í vanda vegna misnotkunar eða ávana, að samfelldri og samþættri þjónustu sem byggist á bestu þekkingu og kröfum um gæði.

Að draga úr skaða og fjölda dauðsfalla vegna eigin neyslu eða annarra á áfengi eða öðrum vímugjöfum.

Í stuttu máli sagt, hæstv. forseti, er það frumvarp sem hér hefur verið lagt fram af hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni og fleiri þingmönnum í fullkominni andstöðu við öll meginmarkmið áfengisvarnastefnu stjórnvalda.

Við hér á Alþingi höfum líka nefnt stefnu í vímuvörnum. Við náðum að sameinast um það að við teldum rétt að endurskoða þá stefnu og hverfa frá refsistefnu yfir í að líta á vímuefni sem heilbrigðis- og félagslegt vandamál og refsa fólki ekki fyrir það sem nú eru brot á lögum eins og að vera með neysluskammta eða eitthvað slíkt.

Snarrótin, sá góði félagsskapur, hélt um síðustu helgi ráðstefnu um vímuefnamál og fékk fjölda erlendra sérfræðinga hingað til lands til að fjalla um þessi mál. Það var fólk með reynslu af tilraunum sem verið er að gera í Portúgal og Kóloradó í Bandaríkjunum. Þarna var bandarískur lögreglumaður með yfir 30 ára reynslu í lögreglunni og götulögmaður sem sérhæfir sig í að vinna með fólki sem býr á götunni og einn sænskur fræðimaður sem ég ætla nú aðeins að tala um hér. Hann heitir Ted Goldberg og er prófessor í félagsfræði við Stokkhólmsháskóla, fæddur í Bandaríkjunum en hefur búið áratugum saman í Svíþjóð. Hann hefur skrifað og rannsakað mikið þessi málefni og talar um stefnu Svía í vímuvörnum. Hans niðurstaða er sú að Svíar séu á algjörum villigötum í þeim efnum. Þar sé ekki horft á skalann heldur annaðhvort neyti maður ekki vímuefna eða sé í alvarlegri neyslu og viðjum hennar og það sé ekki litið á einhvern miðjuás þar sem fólk geti verið í einhverri neyslu sem sé algjörlega innan hóflegra marka. Hann varar líka við því að litið sé á vímuefni út frá því að fólk verði líkamlega háð þeim. Stóri vandinn hjá þeim sem fari út í alvarlega neyslu sem skerði lífsgæði þeirra þannig að staða þeirra verði skelfileg sé tengdur félags- og sálfræðilegum þáttum og það þurfi að nálgast vandann með þeim hætti. Ég ætla að viðurkenna það, hæstv. forseti, að ég var algjörlega sammála honum og mjög ánægð með fyrirlestur hans en ég sat smástund og velti því fyrir mér: En áfengisstefna Svía, sem er sú sama og Íslendinga, hvað ætli honum finnist um hana? Það fór aðeins um mig, hvort ég þyrfti að endurmeta afstöðu mína því að mér finnst að við alþingismenn eigum að vera tilbúin til endurmats.

Það kom að því að hann tók að ræða áfengisstefnu Svía og sagði: Það er svo furðulegt að ríkinu hafi tekist svo farsællega að móta skaðaminnkandi áfengisstefnu þar sem aðgengi er takmarkað en þó þannig að allir geta náð í það, sé vilji til þess og án vandræða, og verðlagningin er þannig að fólk hefur efni á því en það kostar samt og er til fyrirmyndar og hefur reynst vel. Hann hvatti einmitt til þess að vera með sams konar vímuefnastefnu eða horfa á hana sömu augum. Hann var reyndar ekki tilbúinn til þess að segja að hann vildi lögleiða fíkniefni, en sagði að við ættum að treysta okkur til að gera tilraunir. Við eigum að vera með góðar upplýsingar um stöðuna í málaflokknum og síðan getum við farið út í sértækar tilraunir. Eigum við að kanna hvernig það mun skila sér að hafa neyslurými þar sem verst stöddu neytendurnir fá efnin? Eigum við að breyta þeirri áherslu að leita á ungmennum á popphátíðum að fíkniefnum og beina kannski spjótum okkar að alvarlegri glæpum á sviði fíkniefna? Hann sagði að ef við gerðum þetta, ef við værum með upplýsingar um hvert ástand mála væri, færum svo í þessar tilraunir og tækjum þær síðan út þá gætum við metið: Tókst þetta vel? Ef það tækist vel þá héldum við áfram og gerðum jafnvel fleiri tilraunir, en ef það tækist illa þá hættum við því og reyndum eitthvað annað. Þetta var hans viðhorf til vímuefnastefnunnar og ég er algjörlega sammála henni. Hann undraði sig á hvernig ríki eins og Svíþjóð væri sporgönguríki varðandi skaðaminnkandi áfengisstefnu.

Ég held að ýmsir þingmenn sem hafa áhuga á skaðaminnkandi vímuefnastefnu ættu að fagna því að á Íslandi rekum við skaðaminnkandi áfengisstefnu.

Það er líka oft talað um að þrátt fyrir skort á aðgengi eða aðgengishamlanir á Íslandi drekki Íslendingar ógeðslega mikið og hagi sér svona og svona. Það er bara ekki alveg rétt. Við erum kannski með ákveðið drykkjumynstur en það er mjög mismunandi eftir hópum. Þegar kemur að áfengisneyslu á íbúa þá erum við í 23. eða 26., ég man það ekki akkúrat núna, hæstv. forseti, meðal OEDC-þjóða. Við neytum miklu minna áfengis en mjög margar aðrar þjóðir innan OECD. Það leiðir auðvitað til þess að bæði félagsleg vandamál vegna áfengisneyslu og heilbrigðisvandamál vegna áfengisneyslu verða minni. Þau eru næg fyrir, það er ekki eins og það sé skortur á þeim hér á landi. Við búum þó betur en ýmsar aðrar þjóðir eins og Bretar sem eru mjög mikið að velta fyrir sér hvernig þeir geti takmarkað áfengisneyslu sem er mjög mikil þar í landi, sérstaklega meðal ákveðinna samfélagshópa.

Áfengisstefna er ekki trúarbrögð. Hún byggir á því að taka ákvörðun um hvernig aðgengi að þessu fíkniefni eigi að vera, hvernig vernda eigi fólk fyrir skaðlegum áhrifum og við þurfum að vera tilbúin til þess að ræða það opinskátt og fara í endurmat ef svo horfir við. Nú sé ég ekki að það sé tilefni til endurmats. Það virðist vera sem meiri hluti þjóðarinnar telji ekki þörf á endurmati. Það eru nokkrir þingmenn sem líta á það sem eitthvert markmið að ná þessu í gegn og hvern það skaðar vitum við og hverjir hagnast á því vitum við. Við erum hér fjölmargir þingmenn sem erum ósammála þeim (Forseti hringir.) pólitísku áherslum.