145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:20]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Nú sit ég ekki lengur í Norðurlandaráði og þar af leiðandi ekki í velferðarnefnd Norðurlandaráðs. Ég ætla bara að játa að ég veit ekki hversu mikið er fylgst með þeirri umræðu sem á sér stað nú á Íslandi. Það er engum hnöppum um það að hneppa að þegar þetta var tekið upp í Norðurlandaráði þá var það af því að það kemur alltaf reglulega upp umræða um einokun ríkisins á áfengissölu á Norðurlöndunum og þingmenn vildu fara aðeins ofan í saumana á því. Auðvitað voru flestir sem þarna voru ánægðir með núverandi stefnu, en við vildum fara yfir sviðið og sjá hvað væri að gerast í þessum málum. Það sem kom mér mest á óvart var ekki hvað stefnan væri góð og gild heldur hversu ríka áherslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lagði á það að ríki sem nytu þeirra forréttinda að hafa einokun ríkisins á sölunni færu ekki út í breytingar því að það hefði ófyrirséðar afleiðingar og erfitt væri að snúa til baka, ef ekki ógjörningur þegar einu sinni væri búið að breyta um fyrirkomulag.

Auðvitað er það þannig hjá landlækni, þar sem lýðheilsan er í stjórnsýslunni, að fólk þar á bæ er í alþjóðlegu samstarfi og það hefur auðvitað miklar áhyggjur. Kollegar þess í öðrum Evrópuríkjum telja Ísland vera á miklum villigötum að ætla sér að hverfa frá okkar góðu skaðaminnkandi áfengisstefnu.