145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir mjög gott andsvar. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar aðhyllist ég frjálslynt og mannúðlegt samfélag. Ég vil búa í þannig samfélagi og ég held að langflestir Íslendingar vilji búa í þannig samfélagi. Í frjálslyndu samfélagi viljum við frelsi og þá viljum við frelsi til að njóta hæfileika okkar og fá jöfn tækifæri á við aðra óháð efnahag. Við viljum hafa frelsi til að vaxa og þroskast og tækifæri til að gera það sem hugur okkar stendur til og að það fari ekki eftir efnahag foreldra okkar hvort við fáum tækifæri til þess eða ekki.

Mér finnst þetta frumvarp eins og svo margt sem kemur frá Sjálfstæðisflokknum, þar hefur frelsi merkinguna frelsi til að sýna græðgi á kostnað annarra. Hér er sú frelsishugmynd sett í þann búning að þetta snúist um einstaklingsfrelsi. Einstaklingsfrelsi er ekki skilgreint á einn afmarkaðan hátt og við getum haft mismunandi hugmyndir um hvernig eigi að nálgast það, en ég held að allir sem nálgast það hugtak með ábyrgum hætti líti svo á að einstaklingsfrelsi sé það frelsi sem skaðar ekki hagsmuni annarra. Ef við horfum til áfengissölu og aðgengis að áfengi er áfengi mikill skaðvaldur í samfélögum. Það að segja að okkur ætli að vera sama um það og að við ætlum að líta fram hjá því svo að Pétur og Páll njóti einstaklingsfrelsis í matarbúðinni er náttúrlega bara hlægilegt og stenst enga skoðun.