145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:36]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í mínum huga er frjálslynt samfélag samfélag þar sem einstaklinganir geta búið án stjórnsemi, án afskipta stjórnvalda af lífi þeirra og hvernig þeir kjósa að haga því. En það að þurfa að fara í tiltekna sérverslun til þess að ná í ákveðna vöru hamlar ekki því frelsi vegna þess að varan er að sjálfsögðu í boði. Ef það væri bannað að kaupa viðkomandi vöru hefði það hamlandi áhrif á frelsi einstaklingsins, að mínu mati. Það er einn punktur í þessu.

Annað snýst síðan einfaldlega um vísindi. Spurningin sem við þurfum að vera tilbúin til að svara þegar við tökum afstöðu til þessa máls er: Teljum við æskilegt að áfengisneysla í samfélagi okkar aukist? Vegna þess að vísindin og reynsla annarra þjóða segja okkur að það verði raunin.