145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[17:53]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ein lítil forvitnisspurning, það er nú kannski svolítið ósanngjarnt að beina henni til þess forseta sem var rétt í þessu að setjast á forsetastól, en mig langar til að vita hvort einhverjar fregnir sé að hafa af hæstv. heilbrigðisráðherra. Þess var óskað í síðustu viku og það ítrekað í upphafi umræðunnar í dag að hann yrði viðstaddur umræðuna. Við erum hér nokkur í þingsalnum og fleiri — við erum mörg hér í þingsalnum sem viljum vita hvort hæstv. ráðherra Kristján Þór Júlíusson kannist við sjálfan sig, kannist við þau orð sem höfð eru eftir honum á vefsíðu Stjórnarráðsins 24. janúar árið 2014, um áfengisstefnuna og hvernig hún samrýmist síðan því sem boðað er í því frumvarpi sem liggur nú fyrir þinginu.