145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:02]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir þá ósk að hæstv. heilbrigðisráðherra komi hér í hús eins og beðið var um við upphaf umræðunnar og engin svör hafa borist við þeirri beiðni.

Ég tek líka undir það sem hv. þingmaður sagði á undan mér um málþófsumræðuna. Þegar við byrjuðum að ræða þetta mál gladdi mig mjög að sjá að hér voru stjórnarþingmenn að ræða það, sem reyndar voru flestir á móti málinu. Þó situr einn í hliðarsal sem er málinu fylgjandi, er á því og hefur tekið þátt í umræðum og andsvörum og það er vel. Það er mjög leitt að þegar mál sem þarfnast mikillar umræðu, þegar mikill ágreiningur er um þau, fái strax á sig málþófsstimpil, að meiri hlutinn segi um leið og þrír fara á mælendaskrá að hér sé hafið málþóf af því að það er vitað að mál eru umdeild.

Auðvitað viljum við eiga orðastað við bæði meiri hluta og minni hluta en sérstaklega við meiri hluta, bæði þá sem eru með málum (Forseti hringir.) og hina sem eru á móti þeim, og fara í rökræðu. Hana vantar.