145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:09]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að segja að mér finnst sú mikla pressa sem er á þetta mál, eins og að þetta sé upphaf og endir alls í þingstörfunum, mjög undarleg, að við getum ekki frestað þessu máli núna fyrst hæstv. heilbrigðisráðherra getur einhverra hluta vegna ekki verið við umræðuna. Ég ætla rétt að vona að það sé búið að reyna að ná í heilbrigðisráðherra og gera honum grein fyrir óskum okkar þingmanna um að hann verði við umræðuna.

Þetta mál er ekkert að hlaupa frá okkur. Eru menn að reyna að klára það til að fá brennivín í búðir fyrir jólin til að fá sem mesta veltu inn í verslunina? Er það keppikeflið og metnaðurinn? Brennivín í búðir fyrir aðventuna? Ég bara spyr. Hvað á maður að halda fyrst það er ekkert á dagskrá þingsins merkilegt nema brennivín í búðir (Forseti hringir.) að mati þeirra sem leggja málið fram?