145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:30]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem því miður hefur gerst hér í þessari umræðu er að flutningsmenn þessarar tillögu hafa gert þau reginmistök að rugla saman hugtökunum „vesen“ og „frelsi“ og einhvern veginn talið það vera frelsismál að menn gætu verslað áfengi í matvöruverslunum þegar það hefur ekkert með frelsi að gera, það hefur bara með vesen að gera. Það er voða þægilegt fyrir þá sem vilja kaupa sér áfengi að þurfa ekki að fara í eina búð í viðbót. Það er meira vesen fyrir þá að fara í eina búð í viðbót, en það hefur ekkert með frelsi að gera. Það eru mistökin í þessu máli.

Mér finnst mjög mikilsvert og ég er mjög ánægður með að geta verið að ræða slík hugtök hér í þingsal, mér finnst það skipta mjög miklu máli. En ég er að færa fyrir því rök að þetta hafi ekkert með frelsi einstaklingsins að gera, ekki nema þegar kemur að frelsi þeirra sem vilja og þurfa að vera án þeirra afleiðinga sem áfengisneysla hefur í för með sér. Það er ekki vesen að alast upp með alkóhólískt foreldri, það er miklu meira en vesen. Það veit sá sem hér stendur af eigin reynslu. Það er skerðing á frelsi. Það er brot á mannréttindum. Það er eitthvað sem við eigum ekki að bjóða börnum upp á í þessu landi.

Ef einhver þarf að leggja á sig smá vesen til að geta minnkað þau áhrif og dregið úr þeim afleiðingum sem áfengisneysla hefur fyrir sakleysingja í þessu landi, þá eigum við að gera það.