145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:32]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er ég á þeirri línu að vilja hafa aðgang að áfengi. Ég hef talað svolítið út frá sjónarhóli neytandans í því efni. Ég vil hafa gott val og ég vil fyrirkomulag sem tryggir lágt verðlag, sem sagt hagkvæman dreifingarmáta. Við þekkjum það síðan að verðlaginu stýrir ríkið með sköttum en ekki með álagningunni sem verslunarvöru, það er allt annar handleggur. En ég hef jafnframt talað fyrir því að sölumátinn verði ekki ágengur, að við virkjum ekki markaðslögmálin eins og þau gerast grimmust.

Stundum hefur mér fundist áfengisverslun ríkisins ganga of langt fram í þessu efni. Hún á að sjálfsögðu að reyna að veita góða þjónustu, en hún þarf að kunna sér hófs, hún þarf að gera það. Ég hef stundum fundið að því að hún geri það ekki alveg sem skyldi. Þetta er vandrötuð lína, en hún þarf að rata þá línu, hún þarf að gera það.

Ég mundi kjósa, hæstv. forseti, að í stað þess að vera að ræða þetta galna frumvarp ættum við að vera að ræða það hvernig við getum tekið á áfengisvandanum í landinu og þá hugsanlega hvernig við getum gert þessa dreifingu á áfengi betri og ábyrgari en þegar er.