145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir frekar sannfærandi ræðu, verð ég að segja, ekki alveg nógu sannfærandi til þess að henda mér yfir girðinguna ef svo mætti að orði komast, en vissulega meira sannfærandi en margar aðrar sem ég hef heyrt fyrr í dag og áður um þetta efni. Mér hefur stundum fundist eins og málflutningur andstæðinga frumvarpsins sannfæri mig meira um ágæti þess heldur en hitt, sér í lagi þegar menn tala um frelsið eins og það sé afgangsstærð, eins og frelsi skipti ekki máli. Ég hef staðið hér og sagt að frelsi skipti máli í þessu sem sjálfstætt gildi. Það þarf ekkert að skila hagnaði, það þarf ekkert að skilja tekjum. Það þarf ekki einu sinni að vera skynsamlegt. Það þarf ekki að efla lýðheilsu. Það þarf bara að vera frelsi.

Hv. þingmaður mótaði ræðu sína að miklu leyti út frá frelsinu og þá kannski öðrum hliðum þess en hafa verið sérstaklega til umræðu hér, en það er auðvitað frelsi neytandans til þess að kaupa áfengi sem hv. þingmaður kallar frelsi frá veseni frekar en nokkuð annað, sem mér þykir áhugaverð nálgun og í meginatriðum rétt.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður móti afstöðu sína út frá því að áfengisins sé neytt og það sé kannski pirrandi að umgangast fyllibyttu, sem það vissulega getur verið, hv. þingmenn af öllu fólki ættu að vita það, eða hvort hv. þingmaður mundi kannski líta öðruvísi á málið ef það væri hægt að minnka ófrelsið sem hv. þingmaður talaði mikið um, ófrelsi barna alkóhólista til að mynda. eða láta það standa í stað þrátt fyrir aukið aðgengi. Það sem ég er í raun og veru að spyrja um er hvort hér skipti mestu máli andúðin á vímunni, áfengisneyslunni, á einhverju sem neytandinn gerir sem dæmi, að hv. þingmaður þurfi að umgangast einhverjar fyllibyttur án þess að vilja endilega umgangast þær, eða eru það aðallega áhrifin af neyslunni á þriðja aðila, áhrifin sem valda ófrelsi tengt þriðja aðila?

Ég vona að spurningin mín sé skýr. Ég spyr vegna þess að það voru önnur atriði í ræðu hv. þingmanns sem mér þóttu alls ekki sannfærandi. Ég fer kannski út í þau í seinna andsvari.