145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eiginlega tvær röksemdafærslur sem mér þykja hvað mest ósannfærandi í málflutningi þeirra sem eru á móti frumvarpinu. Það er annars vegar kostnaðurinn við heilsugæslu, forvarnir, meðferðarrúrræði og því um líkt og hins vegar lýðheilsusjónarmiðin, þ.e. sá hluti þeirra sem snýr að neytandanum sjálfum. Ég er þeirrar skoðunar að við borgum fyrir kerfið okkar með skattfé og það sé pakkinn, það sé díllinn. Þannig er samfélagssáttmálinn, við borgum fyrir kerfið með skattfé og eftir það þykir mér ekki eðlilegt að ríkið sé einhvern veginn að reyna að haga tekjum sínum eftir því hvernig fólk hagar sér almennt. Það er grundvallaratriði sem ég aðhyllist gagnvart skattlagningu og hlutverki ríkisins.

Hins vegar þykir mér mjög áhugaverður þessi vinkill hv. þingmanns gagnvart aðstandendum neytandans. Mér þykir hann mun mikilvægari og áhugaverðri heldur en kostnaður við heilsugæslu til að mynda. Ef kostnaður fer upp þá fer hann upp, það verður bara að hafa það, þá skattleggjum við meira eða hvernig sem það er. Fyrir mér er þetta það einfalt út frá hlutverki ríkisins.

Hins vegar hefur ýmislegt áhrif á neyslumynstrið og hvernig áfengisneysla brýst út. Það eru alkóhólistar á Íslandi enda er áfengi selt á Íslandi, hvort sem það er löglega eða ólöglega, og alkóhólistar eru alkóhólistar þótt það sé ekki bjór í búðum og þeir komast á pöbbinn, þeir geta keypt meira þegar ríkið er opið o.s.frv. Alkóhólistar redda sér áfengi, það hefur aldrei verið vandamál í sjálfu sér, að mér vitandi, ég þekki alveg alkóhólista eins og sennilega allir aðrir í þessu herbergi.

Telur hv. þingmaður að það sé hægt að breyta neyslumynstri fólks sem drekkur stundum of mikið þannig að það drekki aldrei of mikið heldur yfirleitt í hófi eða næstum því alltaf eða alltaf í hófi þannig að það komi ekki niður á þriðja aðila? Telur hv. þingmaður að neyslumynstrið geti bætt hlutina?