145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil óska eftir hv. þingmönnum sem styðja þetta frumvarp vegna þess að hér er orðræðan orðin meira sannfærandi seinni hluta dagsins en hún var fyrri hluta dagsins.

Hv. þingmaður talaði mikið um börn og af miklum krafti og réttilega svo. Mér þótti ræða hv. þingmanns Róberts Marshalls áðan sérstaklega áhugaverð vegna þess að hún byggði á hugtakinu „frelsi“, frelsi aðstandenda alkóhólista t.d., sér í lagi barna. Eins og ég hef sagt frá upphafi þegar kemur að þessu máli er mér alveg sama þótt fólk taki þá persónulegu ákvörðun í lífi sínu að neyta meira áfengis, mér er hins vegar ekki sama ef það eykur unglingadrykkju eða kemur niður á hagsmunum barna.

En ég velti fyrir mér hvernig hv. þingmaður sjái fyrir sér að neyslumynstur geti breyst og þá kannski ekki út frá þessu tiltekna frumvarpi því að útfærslurnar eru margar, það er hægt að fara í aukið aðgengi að áfengi eða minnkað umstang einhvers konar. Við vitum af reynslunni að hægt er að auka aðgengið og hægt er að stíga í átt til vesenisminnkunar samhliða því að draga úr unglingadrykkju. Ég tel að þar sé fyrst og fremst um að ræða áhrif forvarna og samþættrar nálgunar gagnvart fræðslu unglinga o.s.frv.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sjái fyrir sér að ómögulegt sé yfir höfuð að takast á við þessi vandamál gagnvart hagsmunum barna, hvort hagsmunir barna séu ófrávíkjanlega ósamrýmanlegir minnkuðu umstangi þegar kemur að sölu áfengis.