145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:02]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég var að freista þess áðan að rökstyðja einmitt það sem hv. þingmaður nefnir, þ.e. að við vitum samkvæmt rannsóknum að áfengisneysla eykst með því að aðgengi að áfengi er auðveldað. Við vitum að það eykur hættu á því í fyrsta lagi að veikir alkóhólistar auki neyslu sína, að þeir sem eru veikir á svellinu verði veikir alkóhólistar, að þeir sem lifa edrúlífi og vilja gera það eigi erfiðara með að standast umhverfi sitt og allt þetta geri það að verkum að börn og ungmenni sem búa í einhvers konar návígi við þá sem eru í vandræðum með neyslu á áfengi líða fyrir það. Þannig er það. Ég er ekki með þær tölur á hraðbergi hversu margir það eru sem kjósa edrúlíf og ég veit heldur ekki hversu margir það eru sem eru virkir alkóhólistar, en þessar tölur eru mjög háar. Þessar tölur eru mjög háar. Þetta er gríðarlegur fjöldi fólks.

Þetta er alveg örugglega og án nokkurs efa samtvinnað. Hins vegar er ég alveg sammála þeim punkti eða þeirri hugsun sem kom fram í spurningu hv. þingmanns að forvarnir eru sérstakt og afmarkað viðfangsefni sem hægt er að vinna áfram að óháð því hver niðurstaða þessa máls verður. Það er hægt að vinna að forvörnum og það er hægt að vinna að fræðslu o.s.frv. gagnvart börnum og ungmennum. Ég er hins vegar sannfærð um það að aukið aðgengi gerir það að verkum að forvarnirnar þarf að hugsa upp á nýtt og aukin neysla ein og sér gerir það að verkum að það er enn meiri þörf á forvörnum og þar með eru þeir sem eru valdalitlir í samfélaginu enn þá útsettari fyrir þessum vanda.