145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég nefndi það áðan í ræðu að ég teldi að sönnunarbyrðin hvíldi alls ekkert á mér. Mér finnst að ég þurfi ekkert að segja hverju þurfi að breyta. Ég er ekki flutningsmaður þessa frumvarps. Ég er ekki með á því. Ég er á móti því. Mér finnst það vera lagt fram á vitlausum tíma og mér finnst innihaldið vera vitleysa og mér finnst við vera að eyða tímanum í vitleysu og mér finnst að það ætti að draga frumvarpið til baka. Ég væri ánægð með það ef þeir sem eru meðmæltir því væru meira sannfærandi því að þá gætum við kannski tekist aðeins meira á. En mér finnst sönnunarbyrðin hvíla á þeim. Mér finnst ég ekkert þurfa að fara að útskýra það að ég vilji breyta þessu fyrirkomulagi einhvern veginn.

Unglingadrykkja hefur dregist saman, það er rétt. Ég er svo lánsöm sjálf að hafa eignast fjögur börn á mjög löngum tíma, á 16 árum, þannig að ég sé beinlínis hjá þeim krökkum breytingar sem hafa orðið á undanförnum áratug eða svo í unglingadrykkju og í afstöðu ungs fólks til áfengisneyslu. Það er gríðarlega mikill árangur sem við höfum náð í þeim efnum. Þegar maður hefur náð góðum árangri, á maður þá ekki frekar að horfa til þess að ástandið sé að öllum líkindum frekar gott, á maður ekki að segja það þá? Þarf þá ekki sá sem vill breyta ástandinu að rökstyðja það betur en hér er gert? Það finnst mér.

Mér finnst í raun og veru með þessu máli verið að færa áfengið meira út í almannarýmið. Það er verið að gera það ágengara í daglegu lífi, í daglegu lífi allra, bæði þeirra sem vilja nota það og þeirra sem vilja það ekki. Mér finnst að við megum líka taka tillit til þess. Mér finnst það dálítið mikilvægur punktur og ekki síst vegna barnanna.