145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er að minnsta kosti þannig að það er ekki samkvæmni í því sem valdhafar segja og gera. Ég vil eiginlega ekki trúa öðru en því að það hljóti að gerast áður en 1. umr. lýkur um þetta mál — ég sé að allnokkrir eru á mælendaskrá og klukkan er langt gengin átta, þannig að væntanlega fáum við tækifæri til að gera aðra atlögu að því að ná hæstv. heilbrigðisráðherra hér inn í umræðuna — að botn fáist í það hvort hæstv. heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson sé með fjarveru sinni að ganga á bak sinni fyrri stefnumörkun varðandi áfengis- og vímuefnamál; og að hann, með fjarveru sinni, sé að lýsa yfir stuðningi við þetta mál, sem hans eigin formaður hefur raunar mælt með að verði klárað hér í gegnum þingið.

Mér finnst það óásættanlegt, mér finnst það ábyrgðarlaust og mér finnst það líka ósvífið — ég er alveg til í að taka undir það hjá hv. þingmanni — að láta ekki svo lítið að gera þinginu að minnsta kosti grein fyrir því að ráðherrann hafi snúið baki við sinni eigin stefnu og stefnu sinnar eigin ríkisstjórnar í svo stóru máli sem hér er undir. Ég tek undir það að það er bæði ábyrgðarlaust og ósvífið, það er illa farið með það lýðræðislega umboð sem hæstv. ráðherra er falið, en því miður er þetta eitt af fjölmörgum slíkum málum sem við höfum séð hér í þinginu.

Þetta er óvenjulegt að því leyti til að það er borið fram sem þingmannamál. Það er farið með það hér sem þingmannamál þó að forusta annars stjórnarflokksins tali fyrir því að það verði klárað, þvert á samþykkt og niðurstöðu ríkisstjórnarinnar sjálfrar.