145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:23]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir góða ræðu og ég segi góða ræðu vegna þess að það er jákvætt að ræða þetta mál út frá stefnu. Hv. þingmaður kom inn á þessa stefnumarkandi aðgerðaáætlun sem var samþykkt og hann vitnaði til yfirmarkmiða áætlunarinnar sem gjarnan eru sett í stefnumótunarplöggum. Eitt þeirra er fólgið í því að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum.

Nú er það svo að í frumvarpinu er miðað að því að afnema einkasölu, þ.e. eina breytingin snýr að sölufyrirkomulaginu. Það eru fjölmörg önnur atriði sem skipta máli þegar kemur að opinberri stefnumörkun í áfengismálum. Eitt af þeim er takmörkun á aðgengi. Sölufyrirkomulag er eitt af fjölmörgum atriðum í takmörkun á aðgengi. Það er hægt að takmarka aðgengi með margvíslegum hætti, m.a. með aldurstakmarki. Það er ekki verið að hvika frá því í frumvarpinu. Það er hægt með opnunartíma. Það er ekki verið að hvika frá því. Það er hægt með takmörkun á fjölda sölustaða. Í frumvarpinu er að finna heimild sveitarfélaga til að hafa áhrif á það. Því vil ég spyrja hv. þingmann í fyrra andsvari: Af hverju talar hann eins og þetta sé svona afgerandi þáttur í þessu máli þegar fjölmargir aðrir þættir snúa að takmörkun?