145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:27]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og hann skildi eftir spurningu fyrir mig. Ég skildi það svo að í andsvörum værum við að fara yfir ræðu hv. þingmanns en mér finnst sjálfsagt að svara þessari spurningu. Að gæta bróður míns. Jú, að sjálfsögðu er ég sammála hv. þingmanni og samflokksmanni Þorsteini Sæmundssyni að okkur beri að gæta bróður.

En ég ætla að staldra við ræðu hv. þingmanns sem var býsna góð vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að móta áfengisstefnu og horfa til lýðheilsu eins og hér hefur verið mikið í umræðunni. Á vef landlæknis er að finna tíu atriði sem standa upp úr þegar slík stefna er mótuð. Þau eru í fullu samræmi við markmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og eins og hv. þingmaður kom inn á skyldi þessi stefna sem hann talaði um taka mið af þeim. Þar er í fyrsta lagi talað um aldurstakmarkanir og við komum inn á það og er tryggilega frá því gengið í þessu frumvarpi að ekki er hvikað frá því, þvert á móti. Í öðru lagi er mikilvægt að takmarka sölutíma og söludaga. Í þriðja lagi takmarka fjölda sölustaða og það er komið inn á það í frumvarpinu, heimild sveitarfélaga til þess. Í fjórða lagi er verð og skattar skilvirkast í baráttunni og talið er að verð hafi tvöfalt meiri áhrif en aðgengi. Ég vil spyrja hv. þingmann (Forseti hringir.) hvort það sé ekki mikilvægara að horfa til þess heldur en þessa eina þáttar sem hluta af aðgengistakmörkunum.