145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:30]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eðlilegt að horfa til þessara þátta en þá má heldur ekki sleppa þessum eina þætti sem var efst á blaði í rannsóknarskýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, að horfa til dreifingarmátans og hverjir hafi hann með höndum. Að sjálfsögðu megum við ekki sleppa honum því það er hann sem er fyrst og fremst til umræðu núna og í tillöguformi frá m.a. hv. þingmanni um að breyta hér. Auðvitað hljótum við að staðnæmast fyrst og fremst við þann þáttinn.

Ég sakna þess eiginlega að umræðan geti ekki orðið miklu lengri vegna þess að það sem er kannski að gerast núna er að við erum að byrja að ræða þetta mál. Hér er byrjað að vísa í skýrslur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar, gögn landlæknisembættisins og ég skora á þá nefnd sem fær þetta mál til athugunar að reyna að losa sig við alla kredduhugsun og fara í saumana á þessum gögnum sem voru afgreidd hér léttilega út af borðinu af hv. þm. Sigríði Á. Andersen fyrr í dag. Mér leikur mikil forvitni á að vita hvaða upplýsingum hún býr yfir sem landlæknisembættið, Læknafélagið og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin búa ekki yfir. Ég bíð spenntur eftir að heyra það og það verður vonandi í næstu viku þegar við tökum þráðinn upp að nýju.