145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var snarpur sprettur hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni og þótt ræðan væri stutt var hún ákaflega hnitmiðuð. Mér finnst þeir tveir pólar sem hér eru andstæðir í umræðunni vera annars vegar ýmsir stuðningsmenn frumvarpsins sem leggja ofurkapp á, eins og hv. þm. Willum Þór Þórsson í ræðu sinni í dag og andsvörum áðan, að sýna fram á að frumvarpið skerði í engu eðlileg lýðheilsusjónarmið. Á köflum finnst mér röksemdafærsla þeirra nánast ganga út á það að freista þess að rökstyðja að frumvarpið auki stuðning við hina jákvæðu lýðheilsustefnu í þessu málum, sem ráðherra hefur lagt fram. Á hinn bóginn eru menn eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson sem hafa vísað hér í margar skýrslur sem sýna hið andstæða. Hér hafa líka tveir hv. þingmenn haldið mjög merkar ræður við þessa umræðu, báðir úr Framsóknarflokki, flokki hv. þm. Willums Þórs Þórssonar, hv. þingmenn Þorsteinn Sæmundsson og Frosti Sigurjónsson. Þessir tveir síðastnefndu hafa það umfram mig að þeir hafa pælt í gegnum fjölmargar skýrslur og vísa með mjög lærðum hætti í niðurstöður mjög margra rannsókna. Ég gat ekki nema með öðru eyranu hlustað á ræðu hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar en ég bæði hlustaði á og las síðan aftur ræðu hv. þm. Frosta Sigurjónssonar og þar bar allt að einum og sama brunni. Þeir sem virðast hafa lesið allar þær skýrslur sem fyrir liggja komast að þeirri niðurstöðu að þetta frumvarp stríði gegn lýðheilsustefnunni og eðlilegum lýðheilsusjónarmiðum.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson: Getur hann bent á einhverja eina rannsókn eða könnun sem styður það sjónarmið sem hv. þm. Willum Þór Þórsson og flutningsmenn (Forseti hringir.) frumvarpsins hafa sett hér fram? Er einhver rannsóknir sem bendir til að aukið aðgengi að áfengi leiði ekki til skaðlegra afleiðinga?