145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

afsláttur af stöðugleikaskatti.

[15:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Jú, það er skrifað í lögin að ferlið við undanþágubeiðni sé þetta: Slíku erindi er beint til Seðlabankans. Seðlabankinn fer yfir slíka beiðni. Ef fallist er á hana er hún send til fjármála- og efnahagsráðherra sem ber að leggja sjálfstætt mat á undanþágubeiðnina, að fenginni þessari niðurstöðu Seðlabankans, og kynna efni málsins fyrir efnahags- og viðskiptanefnd í þinginu. Við erum í sjálfu sér með ferli byggt inn í lögin þar sem Seðlabankinn kemur að málinu, fjármála- og efnahagsráðuneytið kemur að því og kynning fer fram fyrir efnahags- og viðskiptanefnd. Það er því alveg ljóst að við munum, ef til þess kemur, ræða málið hér í þinginu.

Ég vil annars segja um það orðaval hv. þingmanns „að gefa afslátt af stöðugleikaskattinum“ að mér finnst það ekki vera rétt nálgun. Vissulega geta þeir sem eiga að greiða skattinn fengið afslátt af 39% skattinum með því að gera ákveðnar ráðstafanir og lækka þannig skattinn. Hin leiðin til að eyða greiðslujafnaðarvandanum er að fara leið stöðugleikaframlags og það eru stöðugleikaskilyrði sem birtast annars vegar í beinum framlögum, í öðru lagi í lengingum á lánum sem eru til staðar í dag og í þriðja lagi með endurgreiðslum á erlendum lánum sem Seðlabankinn veitti á sínum tíma.

Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er í raun og veru ekki sú hvernig þetta kemur út miðað við krónutölu skattsins, heldur hvort við séum að leysa hinn undirliggjandi vanda sem er greiðslujafnaðarvandinn. Það þarf að fara rækilega yfir það. Í því liggur verkefnið og hefur gert allan tímann. Það var til þess að leysa greiðslujafnaðarvandann sem við lögðum fram frumvarpið í sumar (Forseti hringir.) og það var til þess að leysa greiðslujafnaðarvandann sem við höfum verið að vinna í þessu máli núna allt kjörtímabilið og við ætlum ekki að gefa neinn afslátt af því.