145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

loftslagsráðstefnan í París.

[15:26]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að ríkisstjórn Íslands geri sér fullkomlega grein fyrir því að hafið er okkar dýrmæti og að því þurfum við að huga og reyna að gæta þess og minnka mengun.

Varðandi Evrópusambandið þá tilkynnti Ísland markmið sín 30. júní sl., ríkisstjórnin samþykkti þann dag að við stefndum að sameiginlegu markmiði um 40% losun fyrir 2030 miðað við 1990 í samvinnu við Noreg og ríki ESB. Það er það sem ríkisstjórnin er búin að samþykkja. Jafnhliða erum við, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, að undirbúa sérstaka sóknaráætlun þar sem við Íslendingar leggjum fram markmið okkar.

Það er hægt að skipta þeim verkefnum í þrjú svið. Það eru í fyrsta lagi aðgerðir til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Annað er verkefni sem við vinnum á alþjóðavísu og hið þriðja er efling stjórnsýslu og vöktunar í loftslagsmálum. (Forseti hringir.) Það er mjög mikilvægt að við reynum að efla þá innviði til að við getum borið saman (Forseti hringir.) hvernig þróunin verður. Eitt er mjög ánægjulegt og það er að tekist hefur góð samvinna við atvinnugreinarnar í landinu um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.