145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

nýir kjarasamningar og verðbólga.

[15:28]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Glíman við verðbólguna hefur verið umtalsefni síðustu áratuga á Íslandi. Undanfarið hafa verið gerðir samningar eða fallið gerðardómur um kjör ýmissa opinberra starfsmanna. Einnig setur núverandi kjarabarátta Starfsgreinasambandsins og SFR spurningarmerki við verðbólguna.

Þrátt fyrir kjarabætur opinberra starfsmanna hefur verðbólgan hins vegar haldist undir 2,5% viðmiði Seðlabanka og jafnvel lækkað þannig að verðbólguhorfur eru meira að segja góðar fyrir næsta ár. En í ljósi þeirrar stöðu sem verðbólgan er í og þeirra kjarabóta sem opinberir starfsmenn hafa fengið í nýliðinni kjarabaráttu vil ég spyrja: Hefur verið lagt mat á verðbólguáhrif samninganna við opinbera starfsmenn? Ef svo er, hvernig passar það mat við niðurstöðu gerðardóms og stöðu verðbólgunnar? Hver eru þá þolmörk launahækkana við Starfsgreinasambandið og SFR þannig að verðbólga fari ekki fram úr viðmiðum Seðlabanka?