145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

nýir kjarasamningar og verðbólga.

[15:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að við höfum notið óvenjulangs stöðugleikaskeiðs núna. Að hluta til má rekja það til samninganna sem gerðir voru í upphafi árs 2014, sem voru stöðugleikasamningar og lögðu góðan grunn að vaxandi kaupmætti missirin þar á eftir.

Það er hins vegar staðreynd að við getum ekki yfir lengri tíma hækkað laun umfram framleiðniaukningu í landinu án þess að geta gert ráð fyrir því að það endi í verðbólgu og verðminni krónum upp úr launaumslaginu. En hvernig má það þá vera að það sé ekki þegar farið að smitast út í verðlag sem samið hefur verið um og þykir vera allnokkuð umfram þau viðmið á þessu ári? Í fyrsta lagi spila ýmsir ytri utanaðkomandi þættir mjög vel með okkur. Eldsneytisverð hefur lækkað töluvert mikið, flugfargjöld hafa t.d. líka lækkað og aðrir þættir sem rata inn í vísitöluna hjá okkur hafa verið okkur mjög hagfelldir. Að því leytinu til má segja að við höfum lent í ákveðnum kjöraðstæðum til að taka út viðbótarspennu vegna vinnumarkaðarins.

En mun þetta halda til lengri tíma? Við erum með samninga sem taka nokkuð miklum hækkunum á hverju ári, ár eftir ár næstu árin, og af þeim ástæðum hefur Seðlabankinn hækkað vextina. Ég held að erfitt sé að tala um einhver absalút viðmið eins og þingmaðurinn kallar eftir, en ég bendi á að þau lögmál hafa gilt í þessu efni og munu gilda áfram að verkefnið verður að auka framleiðnina í landinu ef menn vilja halda áfram að hækka laun verulega. Það er ekki hægt að vera með stöðnun í framleiðni og miklar launahækkanir. Það er formúla sem ekki gengur upp á Íslandi. En að sjálfsögðu (Forseti hringir.) vonumst við til þess að þær miklu hækkanir sem hefur verið samið um skili sér að sem allra mestu leyti í vaxandi kaupmætti.