145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

nýir kjarasamningar og verðbólga.

[15:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vildi að það væru svo sem engin efri mörk, en mörkin eru auðvitað nátengd því sem er að gerast á almenna vinnumarkaðnum. Hið opinbera getur ekki farið langt fram úr því sem gerist á almennum vinnumarkaði. Það hefur verið algild viðmiðunarregla, a.m.k. fram til þessa, að menn leyfi útflutningsgreinunum í landinu að gefa eins konar merki um það svigrúm sem er til staðar til launahækkana í landinu. Ef menn síðan ganga of langt í því að hækka laun ríkisstarfsmanna, jafnvel svo að þeir þurfi að fara að forgangsraða upp á nýtt á útgjaldahliðinni, þá hefur mér sýnst það enda yfirleitt með því að kaupmátturinn er tekinn til baka með nýjum gjöldum og nýjum sköttum, því miður. Það hefur verið formúlan, hefur mér sýnst, í gegnum tíðina.

Aðalatriðið er að við getum ekki bara skammtað okkur laun. Það þarf að skapa verðmæti í þessu landi. Verðmætasköpunin verður fyrst og fremst í atvinnulífinu. Við þurfum að finna jafnvægi (Forseti hringir.) á milli þeirrar launaþróunar sem er á almenna markaðnum (Forseti hringir.) og hjá hinum opinbera.