145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

verkföll í heilbrigðiskerfinu.

[15:36]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns hér að það verkfall sem nú stendur er mjög víðtækt og hefur töluvert mikil áhrif. Það er mat þess fólks sem stýrir heilbrigðisþjónustunni fyrir okkur að framkvæmd þessa verkfalls sé á margan hátt flóknari og víðtækari en fyrri verkföll sem menn hafa lent í og áhrifin af þessu verði meiri vegna þess að það kemur í kjölfar annarra verkfalla sem við höfum verið að glíma við og þar af leiðandi verður ástandið að mörgu leyti fyrr alvarlegt en áður hefur verið.

Það er alveg ljóst að þetta er margvísleg röskun, biðlistar eru að lengjast og síðast en ekki síst er augljóst að gæði og öryggi þeirrar þjónustu sem við veitum mun skerðast. Þetta er veruleiki sem við göngum ekkert að gruflandi þegar þessi staða kemur upp í heilbrigðiskerfinu.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir um viðhaldið, sérstaklega á Landspítalanum og sömuleiðis á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Hvorug heilbrigðisstofnananna er inni í leigugreiðslu til Fasteigna ríkisins. Ég er hins vegar, eins og hér hefur áður komið fram í umræðum, ekki sammála þeirri gagnrýni að rekstrarframlögin séu að dragast saman til Landspítalans á milli ára. Það er rangt, rekstrarframlög eru að aukast um 300 millj. kr. að raungildi.

Biðlistar, eðli málsins samkvæmt, sem safnast hafa upp, m.a. í verkföllum síðasta árs, verða ekki unnir niður í þessu ástandi. Vandinn eykst. Við erum að vinna núna áætlun sem við erum að afla upplýsinga um í samstarfi við heilbrigðisstofnanir og gerum ráð fyrir því að leggja fram (Forseti hringir.) á næstu vikum plön um það með hvaða hætti við getum unnið biðlistana betur niður.