145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

efnahagsleg áhrif af komu flóttamanna.

196. mál
[15:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Róbert Marshall) (Bf):

Virðulegi forseti. Á haustdögum ársins 2012 átti ég kost á því ásamt hæstv. fjármálaráðherra, sem var reyndar óbreyttur hv. þingmaður þá, ég veit að hann hugsar til þess tíma með mikilli eftirsjá, að funda með fylkisstjórn Manitóbafylkis í Kanada, sem Winnipeg heyrir meðal annars til. Okkur var sagt þar mjög skýrum orðum, ég veit að hæstv. fjármálaráðherra man þetta jafn vel og ég, að það væri mjög eftirsóknarvert og menn væru búnir að reikna það út að þeir þyrftu á tilteknum fjölda innflytjenda að halda til að viðhalda vexti á svæðinu og það væri í raun og veru mjög eftirsóknarvert að stór hluti af þeim, tiltekinn hluti, væri pólitískir flóttamenn vegna þess að þeir væru líklegri en aðrir til að stofna fyrirtæki, skapa störf því að það fólk sem á annað borð hefði haft sig upp í það að ferðast um langan veg væri mjög ólíklegt til að verða, með leyfi forseta, einhvers konar slugsar þegar til áfangastaðarins kæmi. Þetta rímar við það sem fram hefur komið, t.d. í skýrslu frá Alþjóðavinnumálastofnuninni sem kom út í síðasta mánuði. Þar kom fram að innflytjendur hefðu mjög jákvæð áhrif á efnahagslíf landsins sem þeir flyttu til og þeir greiddu almennt skatta og opinber gjöld umfram það sem þeir fengju frá hinu opinbera.

Ég held að það sé mjög mikilvægt í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur um komu flóttamanna hingað til lands og þeirrar áherslu sem heyrist í opinberri umræðu að við þurfum að standa okkur betur í þessum efnum og eins í þeirri umræðu sem upp kemur reglulega og er bara í gangi þessa dagana um komu innflytjenda, fólks frá fátækum löndum, sem eru að leita sér bjargræðis, leita sér að betri stað til að búa á. Því miður er lagarammi okkar þannig að það er tekið frekar kuldalega á móti þessu fólki. Það er full ástæða fyrir okkur til að breiða út faðminn, ekki bara vegna þess að það sé skylda okkar að gera það þegar fólk er í neyð heldur líka vegna þess að við þurfum á þessu fólki að halda. Við þurfum á því að halda að fólk komi hingað, flytji hingað, sækist eftir að fá hér vinnu og leggja sitt af mörkum.

Þess vegna er þessi fyrirspurn. Hún er í raun og veru bara um að menn vissu það greinilega í Kanada hvaða afleiðingar hver flóttamaður hefði efnahagslega og hvaða áhrif hann hefði. Mér leikur þess vegna hugur á að vita frá hæstv. fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytinu hvaða reikningar liggja að baki hjá íslenskum stjórnvöldum í þessum efnum.