145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

efnahagsleg áhrif af komu flóttamanna.

196. mál
[15:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vona að hv. þingmaður virði það við mig að það er ekki auðvelt að koma með skýrt, einfalt svar við þessari spurningu, þ.e. hver áhrifin verði í krónutölu af komu til dæmis hundrað innflytjenda til Íslands, eins og síðari spurningin hljómaði. En eins og fram er komið hefur ríkisstjórn Íslands samþykkt að leggja fram 2 milljarða kr. til aðstoðar við flóttafólk og hælisleitendur á þessu ári og því næsta, þ.e. 2 milljarða í getu okkar til að taka við þeim fjölda og í aðstoð á erlendum vettvangi við stofnanir sem sinna verkefnum þar. Þannig er hluta þessa framlags varið til móttöku flóttafólks í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Við höfum ekki á þessari stundu tekið ákvörðun um fjölda flóttamanna nákvæmlega en velferðarráðuneytið hefur metið kostnað við hvern og einn flóttamann sem kemur hingað í kringum 4,5–5 milljónir á fyrsta ári. Þetta er auðvitað mjög misjafnt eftir stöðu og aðstæðum hvers einstaklings en er vísbending um það við hverju við þurfum að vera búin ef við ætlum að taka við tilteknum fjölda. Hvað varðar efnahagslegu áhrifin í víðari skilningi þá ráðast þau meðal annars af samsetningu þess hóps sem hingað kemur, aldri og menntun. Almennt séð er líklegt að efnahagsleg áhrif af komu þessa fólks verði ekki mikil en þó fremur jákvæð en neikvæð til lengri tíma litið.

Ég vil taka undir með hv. þingmanni þegar hann segir að þetta hafi verið eftirminnileg heimsókn til Kanada á sínum tíma. Það var mjög frískandi að heyra þau viðhorf sem þar hafa ráðið ríkjum við mótun innflytjendastefnu, ekki bara hvað varðar flóttamenn heldur almennt að laða til Kanada fólk frá útlöndum til að styrkja efnahag landsins í víðu samhengi.

Það er að mörgu að hyggja hér. Staða flóttamanna er oft óljósari en annarra innflytjenda. Flóttamenn velja sér sjaldnast að flytja milli landa heldur gera það vegna utanaðkomandi aðstæðna. Þegar ástandið er liðið hjá, ef það gerist, eru dæmi um að slíkir flóttamenn vilji komast aftur til sinna heimahaga og af þeirri ástæðu getur verið erfitt að meta efnahagslegu áhrifin.

Varðandi spurninguna sem snýr að því hver áhrifin væru ef við værum að tala um 100 innflytjendur þá get ég enn og aftur ekki komið með nákvæma tölu. Ég ætla samt að rekja hér það sem hefur verið skrifað um efnahagsleg áhrif fólksflutninga á undanförnum árum. Markaðspunktar Arion banka frá 17. september fjölluðu aðeins um þetta mál en það er hægt að vísa í fleira. Vinnumálastofnun hefur birt á sinni heimasíðu upplýsingar um þessi efni og ég ætla að nefna tvennt. Að jafnaði hafa þeir innflytjendur sem hingað koma verið eldri en á við annars staðar á Norðurlöndum og atvinnuþátttaka þeirra hefur jafnframt verið meiri. Hærri lífaldur gefur til kynna að viðkomandi sé kominn aðeins lengra í lífshlaupinu, búinn að afla sér þekkingar og eftir atvikum menntunar og hátt hlutfall atvinnuþátttöku er þá til vitnis um það að innflytjendur séu strax orðnir virkir. Ég tel þess vegna augljóst að ef við erum að reyna að meta í þessari umræðu hvort það kunna að verða slæm eða góð efnahagsleg áhrif af komu innflytjenda þá sé ég þetta þannig að það sé alveg ótvírætt að efnahagslegu áhrifin eru jákvæð. Það er okkar reynsla fram til þessa og það sem meira er þá getur líka gætt efnahagslega jákvæðra áhrifa í heimalandi viðkomandi innflytjenda þegar þeir eru búnir að koma undir sig fótunum hér og eru jafnvel farnir að styðja við fjölskyldu eða aðra nákomna í heimalandinu með því að senda peninga eins og við þekkjum svo mörg dæmi um í sögunni á Íslandi.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessum þætti innflytjendamálanna, hann á svo sannarlega erindi í umræðuna. Mín niðurstaða er nokkuð skýr um þetta. Ég tel óumdeilanlegt að ef menn standa rétt að (Forseti hringir.) málum þá geti þeir notið jákvæðra áhrifa á efnahagslegan mælikvarða.