145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

efnahagsleg áhrif af komu flóttamanna.

196. mál
[15:54]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langaði að benda á þá staðreynd að á komandi áratugum mun Íslendingum 50 ára og eldri fjölga um 44% og þeim sem eru yngri en 50 ára, sem sagt 49 og yngri, mun fjölga um 4%. Það gefur því augaleið að okkur sárvantar fólk. Einn af helstu veikleikum okkar og samfélags okkar er einsleitni samfélagsins sem stafar einmitt af því sem aðrir hafa bent hér á, þ.e. hversu illilega lokað þetta land er, hvernig svo sem það var ákveðið og hvenær. Svo er annað sem við þurfum að fást við mjög léleg landnýting og smæð hagkerfisins. Hæstv. fjármálaráðherra talar um framleiðni. Ég tel einsýnt að besta leiðin til að styrkja alla þessa hluti, sem ég held að við séum nokkuð sammála um að þurfi virkilega að styrkja hérna, sem er að auka framleiðni og gera þetta að opnu og góðu samfélagi, sé að breyta þeim reglum og lögum sem við höfum um innflytjendur, hælisleitendur og flóttamenn, því að einungis þannig getum við orðið samkeppnishæf við þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við.