145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

efnahagsleg áhrif af komu flóttamanna.

196. mál
[15:57]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að fagna þessari fyrirspurn og ekki síst svörum hæstv. ráðherra því að umræðan um innflytjendamál og málefni útlendinga á Íslandi er oft mjög yfirborðskennd og einkennist stundum af fordómum. Öll rök sem hafa komið fram í umræðum um þessi mál eftir að holskefla flóttamanna hvolfdist yfir Evrópu síðustu vikur og mánuði eru á þá leið að við eigum að taka opnum örmum á móti flóttafólki. Það gagnast samfélagi okkar á öllum mögulegum sviðum. Það er fínt að halda því til haga að hin efnahagslegu áhrif af því að taka á móti flóttamönnum eru afskaplega jákvæð þó svo að ástæðan fyrir því að við eigum að gera það í miklu meira mæli sé mannúðarsjónarmið. Ísland þarf á miklu fleira fólki að halda og allt það sem dregið hefur verið fram í umræðunni styður þá skoðun að við eigum að endurskoða innflytjendastefnuna og opna Ísland miklu frekar, taka miklu betur og hraðar á móti fólki en við höfum gert.