145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

efnahagsleg áhrif af komu flóttamanna.

196. mál
[16:01]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna umræðunni sem hér fer fram og hversu skýrt það skilar sér í gegnum hana að efnahagsleg áhrif af komu flóttamanna eru jákvæð til lengri tíma litið. Ég vil líka taka undir það að mikilvægt er að móta stefnu í málefnum innflytjenda. Eins og staðan er núna mótar innflytjendaráð framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda, en það vantar líka stefnu. Grunnurinn að því byrjar auðvitað hjá flokkunum eins og komið hefur verið inn á áður.

Nefndir voru hér Færeyingar og innflytjendur frá Nýja-Sjálandi og Suður-Afríku, svo má ekki gleyma Frökkum, Hollendingum, Spánverjum, Böskum og Norðmönnum sem hafa virkilega haft áhrif á framþróun í samfélagi okkar í gegnum áratugina og aldirnar.