145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

efnahagsleg áhrif af komu flóttamanna.

196. mál
[16:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tel eins og margir sem hafa tjáð sig um þetta mál að við eigum fyrst og fremst að taka á móti flóttamönnum með mannúðarsjónarmið í huga, en það er líka ágætt að horfa til þess að það erlenda fólk sem komið hefur hingað til lands og ílenst hérna hefur skilað okkur í efnahagslegum ávinningi, því að sá ávinningur er ómetanlegur. Ég kem úr sjávarþorpi, Suðureyri, og hef þekkt það alveg frá því að ég man eftir mér að fjöldi erlendra farandverkamanna frá Nýja-Sjálandi, Ástralíu, Afríku, Bretlandi, Færeyjum, Póllandi, Filippseyjum, Tælandi og fleiri löndum hefur komið þangað og hjálpað okkur að afla tekna með vinnslu á útflutningsverðmætum. Þannig er það víða um land. Sambýlið í þessum litlu sjávarþorpum er dæmi um hvernig fólk af ólíku þjóðerni getur lifað í sátt og samlyndi. Ég held að við eigum ekki að láta málin vefjast (Forseti hringir.) allt of mikið fyrir okkur og reyna að taka vel á móti því fólki sem kemur hingað til lands (Forseti hringir.) og láta ekki kerfið þvælast þar allt of mikið fyrir.