145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

efnahagsleg áhrif af komu flóttamanna.

196. mál
[16:07]
Horfa

Hanna Birna Kristjánsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil líkt og aðrir hv. þingmenn fagna þessari umræðu og minna okkur á það sem skiptir ótrúlega miklu máli, vegna þess að við öll sem höfum fylgst með umræðu um innflytjendamál bæði hér í Evrópu og annars staðar, höfum auðvitað tekið eftir því hvað málin eru oft erfið, viðkvæm og flókin í pólitísku samhengi. Það er þess vegna mikið ánægjuefni að hlusta á hv. þingmenn ræða þessi mál og finna þá samstöðu og sátt sem er meðal flestra um að horfa skuli á þessi mál, ekki einungis út frá því sem menn í hefðbundinni skilgreiningu tala um sem viðfangsefni eða vandamál, heldur sem tækifæri. Það er nefnilega fullt af tækifærum fólgið í því að fagna framtíðinni og fjölbreytileikanum. Ég er þakklát fyrir það að tilheyra Alþingi sem tekur þannig á málum og vil líka sérstaklega nota tækifærið og fagna því hversu afdráttarlaus yfirlýsing hæstv. fjármálaráðherra var hér áðan, enda skiptir það máli í umræðunni þegar oft er verið að ræða um að þetta sé „ákveðinn baggi“ á samfélögum að það sé á hreinu að svo er ekki.