145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

efnahagsleg áhrif af komu flóttamanna.

196. mál
[16:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Róbert Marshall) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram. Hún hefur verið mjög jákvæð og mikill samhljómur. Það er mjög gott. Auðvitað eigum við að gera þetta allt saman á grunni mannúðar. Það er engin spurning í mínum huga. En þá vitum við líka, og við þurfum að hafa það hugfast og nauðsynlegt er að það sé hluti af þessari umræðu, að kostnaður er ekki rök gegn því að gera betur. Kostnaður er ekki rök gegn því að opna á fjölda flóttamanna eða innflytjenda til Íslands. Það eru jákvæð efnahagsleg áhrif sem því fylgja og það er jákvætt.

Að sjálfsögðu þarf ekki að fara jafn langt og til Manitóba, eins og hér var sagt áðan, til að finna dæmi um það en það er samt sem áður mjög gott dæmi vegna þess að þangað fóru Íslendingar þúsundum talsins þegar kreppti að eftir Öskjugos, 1871–1875. Eftir 1900 voru fleiri bækur gefnar út á íslensku í Kanada en á Íslandi. Það segir allt sem segja þarf.

Við þurfum að vera mjög meðvituð um það að við höfum líka verið í þeirri stöðu að vera innflytjendur og flóttamenn. Hvað fóru margir Íslendingar til Noregs og eru þar enn þá að vinna eftir hrunið? Það er nákvæmlega sama staða.

Það er jákvætt að heyra tóninn sem er í þessari umræðu og ég vona að þegar útlendingamálin koma inn núna á vetrarþinginu verðum við meðvituð um þá samstöðu sem hér er í þeim efnum. Ég held reyndar að hún hafi endurspeglast í störfum nefndarinnar, sem er mjög jákvætt. En við þurfum að gera betur og það byrjar hér. Við þurfum að opna umræðuna og vera almennt jákvæð í þessum málum.