145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

skattar og gjöld á vistvæn ökutæki og eldsneyti.

221. mál
[16:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Það er þannig með gjaldtöku á ökutæki og samgöngur í landinu að við erum með dálítið brotakennt kerfi. Það eru ýmiss konar gjöld sem við leggjum á, sum eru beinlínis til tekjuöflunar, bifreiðagjöld og önnur slík gjöld, vörugjöld við innflutning bifreiða. Í sumum tilvikum erum við að skoða meira umhverfislegu áhrifin og eftir atvikum að fjármagna samgöngubætur í landinu eins og ýmis gjöld á eldsneyti eru til vitnis um. Kolefnisgjaldið þessu til viðbótar er hreinn umhverfisskattur.

Það hefur verið mín upplifun að við getum ekki búið við þetta tímabundna ástand mikið lengur, eins og hv. þingmaður kom inn á, að vera með miklar ívilnanir vegna rafbíla sem ráðstöfun til eins árs í senn. Nú finnst mér vera kominn tími fyrir okkur að meta áhrifin af þessari ívilnun og spyrja okkur: Hver eru þá markmiðin lengra til framtíðar varðandi rafbílavæðinguna og hvernig fara þau markmið saman við önnur markmið sem við höfum sett okkur um að umferðin eigi að greiða fyrir hluta af samgöngumannvirkjunum? Hvaða aðrir hvatar eru til staðar í kerfinu eða aðrar ástæður fyrir gjöldum eða álögum sem eiga að koma til skoðunar líka?

Ég ætla að leyfa mér að nefna tvennt sem dæmi í þá umræðu. Annars vegar hef ég mjög miklar efasemdir um að þær kvaðir sem við höfum lögfest um umhverfisvæn íblöndunarefni í eldsneyti fyrir bíla skili þeim árangri sem að var stefnt. Ég tel að það sýni sig að þetta leiði fyrst og fremst til þess að eldsneytið verði dýrara og takmörkuð trygging sé fyrir því að íblöndunarefnin sem slík séu endilega jafn umhverfisvæn og menn gengu út frá þegar lögunum var breytt um þetta efni. Ef svo er erum við bara að auka eldsneytiskostnaðinn með þessu. Þetta vil ég að minnsta kosti skoða. Hitt er að við erum með misjafnar álögur á dísil annars vegar og bensín hins vegar. Það virðist vera gengið út frá því að dísill sé umhverfisvænna eldsneyti en bensín. Ég tel að fyrir því séu mjög hæpin rök. Það kann vel að vera að við bruna á dísilolíu losni um minna af koltvísýringi en á hitt ber einnig að líta að það falla til agnir við bruna á dísli sem eru líka mengandi og ekki síst slæmar fyrir þéttbýli. Þá situr eftir spurningin: Hvers vegna á að vera með einhverja ívilnun fyrir dísil ef hann mengar á heildina litið jafn mikið og bruni á bensíni ef ekki meira?

Síðan er það stórmerkileg þróun, sem við höfum séð á undanförnum árum, að eftir því sem löggjafinn í hinum ýmsu löndum fór að stýra álagningunni í átt til þess sem er umhverfisvænna þá höfum við séð umbyltingu hjá framleiðendum. Þó að við höfum séð slæm nýleg dæmi um að þeir reyni að skjóta sér undan þessu regluverki, eins og hneykslið hjá Volkswagen sýnir, þá er engum blöðum um það að fletta að nær allir framleiðendur eru að þróa mun sparneytnari vélar ár frá ári. Við sjáum jafnvel framfarir milli framleiðsluára sem skipta mörgum prósentum í sparneytnari vélum. Þessari þróun hefur verið hrint af stað með hvötum sem löggjafinn hefur sett og með samstilltu átaki, t.d. innan Evrópusambandsins.

Það sem ég vil gera og hef rætt í ríkisstjórn og rætt það sérstaklega við innanríkisráðherra og umhverfisráðherra er að koma á starfshópi sem horfir til allra þessara þátta: Hvaða markmiðum viljum við ná í umhverfislegu tilliti þegar við horfum til löggjafarinnar, sem hafa áhrif á samgöngur í landinu, ekki síst ökutæki? Hvaða tekjuöflun þarf að vera til staðar til þess að við séum ekki að raska áformum okkar til lengri tíma í ríkisfjármálum? Að hvaða marki eru að verða breytingar í ytra umhverfinu, t.d. vegna rafbíla og eftir atvikum minni eldsneytisnotkunar einstakra bifreiða, sem gefa okkur tilefni til þess að endurskoða þann þátt sem á að fjármagna samgöngumannvirkin í landinu? Þessir (Forseti hringir.) þrír þættir eru stoðirnar í þessu starfi.

Ég hef nú þegar fengið minnisblað til undirbúnings (Forseti hringir.) þessari vinnu. Í næstu skrefum ætla ég að vinna það mál lengra með ráðuneytunum og vonandi skipa starfshóp sem ég hef ekki tekið ákvörðun enn um (Forseti hringir.) hvernig verður skipaður, ég þarf að hafa um það samráð við hin ráðuneytin, en öðrum hvorum megin við áramótin vonast ég til þess að gera það.