145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

húsnæði St. Jósefsspítala.

222. mál
[16:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um fyrirætlanir varðandi St. Jósefsspítala. Þetta er bygging sem við þekkjum öll vel, bygging sem vígð var 5. september árið 1926. Spítalinn var byggður fyrir St. Jósefssystur í Hafnarfirði til að reka þar sjúkrahús og teiknað af Guðjóni Samúelssyni, gríðarlega falleg bygging og hefur mjög mikið menningarlegt gildi í Hafnarfirði og líka í nágrenni Hafnarfjarðar og fyrir landið allt.

Um spítalann hefur töluvert mikið verið rætt. St. Jósefsspítali var sameinaður Landspítalanum um áramótin 2011/2012 eða á því bili, ef ég man rétt. Frá þeim tíma hefur engin starfsemi verið þar, sem er mjög miður. Gerðar hafa verið tilraunir til þess að selja hann og eitt og annað, en það hefur ekki gengið eftir. Því er ég hingað komin til að spyrja hæstv. ráðherra út í áform hans hvað spítalann varðar, hvar það mál er statt. Stutt er síðan bæjarráð ályktaði um þetta eða samþykkti að vísa tillögu til bæjarstjórnar um málið og um St. Jósefsspítala. Það var núna 8. október. Ég held að enginn pólitískur ágreiningur sé um þetta mál í bæjarráði Hafnarfjarðar. Það er gríðarleg samstaða um það. Þau þar vilja í raun og veru fá bygginguna til umráða þannig að þau geti reynt að finna starfsemi inn í hana sem hæfir þessari byggingu, þannig að hún geti nýst áfram vegna þess að byrjað er að sjá á henni. Það er mikil synd ef skemmdir yrðu því að þetta er bæjarprýði og stór bygging sem ætti að henta vel fyrir ýmiss konar starfsemi.

Ég velti fyrir mér og vil spyrja hæstv. ráðherra hvort til greina komi að finna einhverja starfsemi ríkisins þangað inn, einhverja stofnun. Rætt hefur verið um hvort þarna gæti verið miðstöð um móttöku flóttamanna. Rætt hefur verið um ýmislegt, til dæmis hvort bærinn fái bygginguna hreinlega til umráða.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort a) það komi til greina, b) hvort hann hafi hugsað sér eða geti hugsað sér að koma þar fyrir einhverri annarri starfsemi og þá c) hvort einhverjir möguleikar séu á að koma byggingunni í hendur þriðja aðila sem gæti komið henni í nýtingu.

Bara svona til glöggvunar, fyrir þá sem vita kannski ekki af því, er ástæðan fyrir að ég spyr hæstv. ráðherra sú að eignarhald á þessari byggingu er með þeim hætti að ríkið á 85% en Hafnarfjarðarbær eingöngu 15%, þannig að ríkið hefur alfarið umráðaréttinn yfir eigninni.