145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

húsnæði St. Jósefsspítala.

222. mál
[16:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Það er sameiginlegt áhugamál okkar með bæjarstjórninni í Hafnarfirði að sjá líf aftur í húsnæðinu sem áður hýsti St. Jósefsspítala. Húsnæðinu var lokað við árslok 2011. Í framhaldi af því fór fram skoðun á mögulegri nýtingu á húsnæðinu. Það var gert á vegum velferðarráðuneytisins. Ýmsar hugmyndir komu fram en þegar upp var staðið reyndust þær ekki raunhæfar. Þær fólust flestar í því að koma á fót nýrri þjónustu sem hefði kallað á fjárframlög til rekstrar úr ríkissjóði.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið tók við fullu forræði á fyrrum fasteignum spítalans í lok febrúar 2014. Ríkið á 85% hlut í fasteignunum, en Hafnarfjarðarbær 15%. Þetta er mál sem fylgir nokkuð slípuðu verklagi í stjórnsýslunni hjá okkur, þ.e. hvernig eigi að bera sig að við að koma svona fasteignum aftur í not. Í þessu tilfelli lá beinast við að eiga samtal við bæjarstjórnina í Hafnarfirði og það mál endaði með þeim hætti að ákveðið var að auglýsa fasteignirnar til sölu eða leigu. Á þeim undirbúningstíma sem ég er þarna að vísa til þróaðist samtalið þannig að Hafnarfjarðarbær vildi að það yrði kvöð eða áskilnaður um að einhvers konar heilbrigðisstarfsemi yrði til staðar í húsinu eða í þessum fasteignum.

Ég tek fram að Hafnarfjarðarbær hefur til þessa ekki lýst yfir áhuga á að kaupa eignarhluta ríkisins, en eignirnar voru auglýstar eins og ég gat um, og það var gert með þeim hætti að þær voru auglýstar til sölu, ég er ekki viss um að boðið hafi verið upp á leigu eins og ég nefndi áðan, en eignirnar voru boðnar til sölu með þessari kvöð, og bárust fá algerlega óviðunandi tilboð í eignina, langt, langt undir því sem var metið raunvirði eignanna. Það er metið svo að það kunni meðal annars að hafa verið vegna þeirrar kvaðar sem fylgdi í auglýsingunni vegna þess að margir komu að máli við starfsmenn í fjármálaráðuneytinu eftir á og létu vita af sér og gerðu grein fyrir áhuga sínum á að fá að kaupa eignina en til annars tilgangs.

Í framhaldi af þessu hefur átt sér stað samtal við Hafnarfjarðarbæ og við í fjármála- og efnahagsráðuneytinu höfum fyrst og fremst verið að velta upp þeim möguleika að auglýsa einfaldlega eignina aftur með vísan til þess sem ég var að rekja, að fram hafi komið áhugasamir aðilar, en einnig með hliðsjón af þeirri löngu reynslu sem er fengin hjá ríkinu að oft getur þurft að auglýsa eignir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar eða þrisvar jafnvel ef því er að skipta til að fá viðunandi tilboð.

Hafnarfjarðarbær hefur lagst gegn því fram til þessa en hefur lýst áhuga á að fá eignirnar framseldar til sín. Þar stendur málið í raun og veru núna. Ég hallast frekar að því að rétt væri að auglýsa eignirnar til sölu, fyrst aðilar hafa gefið sig fram og lýst yfir áhuga á að kaupa eignirnar og láta á það reyna hvort hærra verð fengist fyrir þær og sjá hvað út úr því kæmi. En ég hef á sama tíma mikinn skilning á því að Hafnarfjarðarbær sé orðinn leiður á þessu ferli öllu sem á rætur sínar að rekja aftur til ársins 2011 þegar spítalanum var lokað og að nú séum við undir lok árs þegar síga tekur á árið 2015 að velta enn fyrir okkur hvernig við ætlum að standa að þessu. En það breytir ekki þeirri skoðun minni að mér finnst eðlilegasta næsta skrefið að auglýsa fasteignirnar aftur til sölu og falla þá frá þeirri kvöð að fara þurfi af stað einhver heilbrigðisstarfsemi í þeim fasteignum. Það er að sjálfsögðu langbest vegna þess að þær eru í sameiginlegu eignarhaldi ríkisins og Hafnarfjarðarbæjar, sem fer með þessi 15%, að um þetta sé sátt. Það verður að láta reyna á það núna hvort ekki getur tekist sameiginlegur skilningur um framhaldið.