145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

húsnæði St. Jósefsspítala.

222. mál
[16:46]
Horfa

Sigurjón Kjærnested (F):

Hæstv. forseti. Ég er frekar nýlega aðfluttur í Hafnarfjörðinn og er núna einn fulltrúa þeirra á hinu háa Alþingi. Ég hef fundið fyrir því að með hverju árinu sem maður býr í Hafnarfirði hugsar maður meira um málefni St. Jósefsspítala, það skiptir mann meira máli. Mér er tjáð af eldri Hafnfirðingum að þetta sé hluti af því að verða alvöru Hafnfirðingur, en jafnframt sé það ferli sem klárist ekki nema með annarri kynslóð afkomenda minna að verða alvöru Hafnfirðingur.

Spítalinn er á margan hátt hjarta bæjarins og hefur núna verið í fjögur ár án starfsemi. Byggingin er bæjarprýði, fallegt hús og er í rauninni algerlega ótækt að ekkert sé í gangi þar lengur.

Ég fagna orðum hæstv. fjármálaráðherra um að auglýsa eigi bygginguna aftur. Jafnframt vil ég taka fram og skora á ríkið í þessu tilfelli að ef ekkert kemur út úr því þá er kominn tími til að leyfa bænum að fá yfirráð yfir þeirri byggingu, vegna þess að eignarhald ríkisins er ekki komið til með kaupum. Það er saga bak við (Forseti hringir.) þetta eignarhald sem setur ábyrgð á ríkið að nota spítalann og sjá til þess að starfsemi sé þar. Ef ég sletti, með leyfi forseta: „Use it or lose it“.