145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

húsnæði St. Jósefsspítala.

222. mál
[16:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég er alveg sannfærður um að hægt er að finna verkefni og starfsemi sem mundi fara vel í þeim fasteignum, en því miður hefur söluauglýsing á eigninni ekki skilað árangri. Ég held að ástæður séu fyrir því sem ég hef farið yfir. Það mundi ekki samrýmast vel þeim venjum sem hafa gilt í sambærilegum málum í samskiptum ríkis og sveitarfélaga að ríkið mundi einfaldlega framselja eignarhlut sinn endurgjaldslaust. Hafnarfjarðarbær hefur heldur ekki boðist til þess að greiða sérstakt kaupverð. Af þeirri ástæðu finnst mér langeðlilegast að menn láti aftur reyna á sölu án þessara kvaða.

Ég er hins vegar alveg viss um að ef menn eru einbeittir í því að finna góð verkefni inn í þetta hús, inn í þessar fasteignir, þá er það leikur einn, sérstaklega ef menn ætla bara að opna dyrnar og hleypa mönnum inn án þess að borga háa leigu eða annað þess háttar. En hafa þarf í huga að húsnæðið þarfnast einhverra endurbóta, sérstaklega þurfa sumir hlutar þessara fasteigna endurbætur. Eflaust hefur það áhrif á áhuga á að koma þarna inn sem leigjandi, nú eða eftir atvikum á kaupverð, sé fasteignin til sölu.

Það er mat okkar að þetta séu nokkuð verðmætar eignir og ber að halda á slíkum verðmætum með sambærilegum hætti og gert hefur verið til þessa. Hugmyndir Hafnfirðinga eiga alls ekki að koma í veg fyrir að við störfum með þeim að því að koma lífi aftur í fasteignirnar. Það er að minnsta kosti minn vilji að leysa þetta mál sem allra fyrst.