145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

háskólarnir í Norðvesturkjördæmi.

201. mál
[17:03]
Horfa

Hörður Ríkharðsson (Sf):

Frú forseti. Landbúnaðarháskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri. Landbúnaðarháskólinn á Hólum sinnir fiskeldi og fiskrannsóknum. Það er ekki landbúnaður per se. (Gripið fram í: Jú, jú.) Hann býður upp á ferðaþjónustunám. Það er ekki landbúnaðargrein sem slík. Skólinn sinnir einnig hestamennsku og reiðmennsku sem fer fyrst og fremst fram í þéttbýli á Íslandi núorðið. Meira að segja búa flestir ræktendur nú í þéttbýli.

Annars gildir það um þessa þrjá skóla og ótal aðrar ríkisstofnanir í þessu landi, sérstaklega skólastofnanir, að við komum þeim upp í dreifbýlinu og svo viðurkennum við ekki að þær þurfa aðra nálgun til þess að reka sig en stofnanir í þéttbýli. Það er bara þannig. Það eru færri nemendur í dreifbýli.

Að öðru. Fyrir ekki mörgum árum síðan hófst þróun í fjarkennslu hér á landi sem hefur gjörbylt starfsemi, m.a. í þessum skólum. Það hefur skapað þeim tækifæri en líka vandamál. Úr því öllu þarf að greiða. (Forseti hringir.) Menn þurfa að vera tilbúnir að borga þann umframkostnað sem af því hlýst að vera með litlar stofnanir í dreifbýlu landi.