145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

Tónlistarsafn Íslands.

202. mál
[17:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mína til málshefjanda og annarra hv. þingmanna og vil fyrst segja þetta: Þegar kemur að lögbundnum verkefnum á þessu sviði er það, eins og ég ræddi í fyrra svari mínu, skýrt hlutverk Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns að varðveita hljóðrit á ýmsu formi samkvæmt ákvæðum 6.–9. gr. laga um skylduskil til safna, þannig að sá þáttur málsins er alveg skýr. Aftur á móti er verksvið þess safns sem við ræðum hér, safnsins í Kópavogi, mun víðtækara í þeirri merkingu að þar er verið að fjalla um hvernig þessi menningararfur er kynntur o.s.frv., miklu umfangsmeiri starfsemi hvað þetta varðar, en sjálf söfnunin á hljóðritunum er skyldubundið verkefni þess safns sem ég hef nefnt áður.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður og málshefjandi nefndi í ræðu sinni, við Íslendingar höfum gert okkur tiltölulega seint grein fyrir þeim mikla menningararfi sem við eigum fólginn í tónlistinni. Rannsóknir fræðimanna hafa sýnt að til dæmis eru heilmiklar heimildir til frá miðöldum um tónlistariðkun Íslendinga, sem sennilega hefur verið meiri en okkur renndi í grun áður en þær rannsóknir birtust. Þess vegna er alveg hárrétt að mjög mikilvægt er að ná vel utan um þetta og það er sjálfsagt mál í framhaldi af þessari umræðu að skoða það.

Ég vil þó ítreka að það er auðvitað heilmikill kraftur fólginn í því að sveitarfélögin komi að þessum rekstri og fleiri safna, eins og t.d. hefur verið nefnt varðandi Siglufjörð og Keflavík eða í Reykjanesbæ. Þar er verið að virkja frumkvæði og áhuga heimafólksins á tilteknum þáttum menningararfsins þegar kemur að tónlistinni, hvort sem um er að ræða þjóðlagasöfnun, eins og menn þekkja norðan af Siglufirði sökum veru Bjarna Þorsteinssonar þar, eða (Forseti hringir.) einhverra annarra tónlistarstefna sem menn vilja halda á lofti. Ég held að mikilvægt sé að virkja það frumkvæði, virðulegi forseti.