145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt að það eru mikil tíðindi sem felast í þeim tillögum sem nú hafa borist frá kröfuhöfum Glitnis. Það leggur okkur ríkar skyldur á herðar ef Íslandsbanki færist í hendur ríkisins, sérstaklega þegar við völd situr ríkisstjórn þeirra flokka sem eiga Íslandsmet, kannski Evrópumet eða heimsmet, í spillingu við sölu ríkisbanka.

Vandinn við þessa útfærslu er auðvitað sá að ríkið axlar nú ríkari áhættu af innlendum bankarekstri og saga okkar segir að það sé ekki áhættulaus rekstur. Verðmæti þessa hlutar er auðvitað óvíst og hættan er sú að til þess að selja hann við góðu verði þurfi að gefa væntanlegum kaupendum veiðileyfi á íslensk fyrirtæki og íslenskan almenning um ókomna tíð. Það er ekkert grín að takast á við það verkefni að selja tvo eignarhluti í tveim bönkum og annan til fulls í ríkiseigu þegar við blasir að bankakerfið er, eins og við vitum öll, útblásið og allt of stórt.

Eftir er síðan að skýra hvers vegna ríkisstjórn Íslands er eins og útspýtt hundsskinn um allar koppagrundir að elta erlenda kröfuhafa til að hjálpa þeim að losna við að greiða þann stöðugleikaskatt sem mundi skila almenningi mörg hundruð milljörðum meira en stöðugleikaframlögin ef af honum yrði.

Ríkisstjórnin lofaði í upphafi síns ferils að hún mundi leggja fram frumvarp um lyklalög sem gerði fólki kleift að losna við skuldir og skila lyklunum. Nú er orðið ljóst að þeir einu sem fá að skila lyklunum eru erlendir kröfuhafar. Þeir fá að skilja eftir áhættuna í höndum Íslendinga og íslenska ríkisins og ganga út með sína peninga.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna