145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Þegar ég fór að undirbúa mig í gær til að flytja þennan ræðustúf hér í dag fór ég yfir nokkrar ræður sem ég flutti í kosningabaráttunni 2013. Ég talaði um verðtrygginguna á hverjum einasta fundi og hversu mikilvægt það væri fyrir heimili landsins að hún yrði afnumin af neytendalánum. Það var sannfæring mín þá og það er sannfæring mín í dag. Framsóknarflokkurinn hélt meira að segja nokkra fundi sem fjölluðu sérstaklega um verðtrygginguna og afnám hennar. Þeir fundir voru vel sóttir og Framsóknarflokkurinn vann glæsilegan kosningasigur. Áherslur okkar í baráttunni voru fyrst og fremst leiðrétting stökkbreyttra húsnæðislána og afnám verðtryggingar á neytendalánum. Ég get því ekki annað en túlkað sigur okkar í kosningabaráttunni sem stuðning fjölmargra Íslendinga við þessi kosningaloforð okkar. Í ályktunum undanfarinna flokksþinga Framsóknarflokksins segir að framsóknarmenn vilji að verðtrygging á neytendalánum verði afnumin. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna segir síðan, með leyfi forseta:

„Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum og endurskipulagningu húsnæðislánamarkaðarins verður skipuð á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar og mun skila af sér fyrir næstu áramót.“

Þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar var fylgt eftir með þingsályktunartillögu í júní 2013. Hópurinn var stofnaður og skilaði minni- og meirihlutaáliti. Menn deildu um hvaða leið væri best að fara en voru sammála um markmiðið, þ.e. að afnema skuli verðtrygginguna.

Virðulegi forseti. Áætlun ríkisstjórnarinnar hefur staðist hingað til. Tíminn er ekki runninn frá okkur en hann mun gera það ef við höldum ekki vel á spöðunum næstu vikur og mánuði. Nú liggur verkefnið á borði hæstv. fjármálaráðherra, ég treysti því að hann vinni málið vel og hlakka til að sjá frumvarpið þegar það birtist okkur.


Efnisorð er vísa í ræðuna