145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég var síðast boðuð á svokallaðan samráðsfund af hálfu stjórnvalda þann 1. apríl. Þá las ég hins vegar framan á blaðinu þann morguninn að stjórnvöld væru búin að ákveða tiltekna hluti, eins og að byggja Hús íslenskra fræða. Reyndist samráðsfundurinn þann daginn fjalla um það sem ég hafði þegar lesið í blaðinu. Í gær fékk ég boð um að mæta á samráðsfund um losun hafta, síðan kveikti ég á útvarpinu í morgun eins og kona gerir. Þar var Sigmar Guðmundsson útvarpsmaður sem sagði mér að ég væri að fara á samráðsfund um að kröfuhafar Glitnis vildu leggja Íslandsbanka inn sem hluta af stöðugleikaframlagi sínu. Ég þakka bara Sigmari Guðmundssyni fyrir samráðið því að svo sannarlega voru það ekki stjórnvöld sem höfðu nokkurt samráð þótt hér hafi lengi verið kallað eftir fundi í samráðsnefnd um losun hafta, bæði héðan úr þingsal og með bréfum af hálfu formanna stjórnarandstöðuflokkanna. Þá var ekki talin ástæða til að kalla til slíks fundar fyrr en í raun og veru var búið að koma öllu sem þurfti að segja út í fréttir. Við þetta geri ég verulega athugasemd, herra forseti. Þessi ríkisstjórn sem hefur kennt sig við samvinnu og samráð virðist algjörlega ófær um að iðka það í raun og er yfirleitt búin að senda út fréttatilkynningu um það sem á að fjalla um áður en fundirnir eru haldnir.

Gott og vel, nú þurfum við þingmenn hins vegar að fara yfir þá stöðu sem er uppi hvað varðar stöðugleikaframlögin. Ég vil nota tækifærið hér og minna á það sem fulltrúar minni hlutans í efnahags- og viðskiptanefnd bentu á þegar þessi mál voru afgreidd í vor, þegar bæði voru afgreiddar leiðir um stöðugleikaskatt eða stöðugleikaframlög og nauðasamninga til að ná þeim fram, að gallinn við hina síðarnefndu leið er einmitt skortur á gagnsæi. Því ætti það að vera metnaðarmál stjórnvalda að tryggja sem opnasta og gagnsæjasta umræðu um þetta þannig að almenningi í landinu sé ljóst við hvað er að eiga í þessu máli. Hér eru í húfi risastórir hagsmunir sem verða hagsmunir alls almennings (Forseti hringir.) í landinu. Ég heiti á alla hv. þingmenn að þeir gefi sér tíma til að kynna sér hvað felst í þessum tilboðum (Forseti hringir.) um stöðugleikaframlög núna þannig að hér verði svo sannarlega tekin upplýst ákvörðun í þágu almennings í landinu.


Efnisorð er vísa í ræðuna