145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Tilboð kröfuhafa Glitnis um að skila hlutabréfunum í bankanum sýnir svo ekki verður um villst að það er mat erlendra kröfuhafa að stöðugleikaskatturinn sé lögmætur og haldi. Þá hljótum við að spyrja: Hvers vegna ætti þá að veita erlendum kröfuhöfum hundraða milljarða afslátt frá stöðugleikaskattinum? Það er alveg ljóst að stöðugleikaskatturinn mun að óbreyttu skila miklu hærri fjármunum en þeir samningar sem ríkisstjórnin hefur verið að reyna við kröfuhafana. Og fyrst það er mat kröfuhafanna og þeir koma fram með hvert tilboðið á fætur öðru til að reyna að fá afslátt frá þessum stöðugleikaskatti hljótum við líka að spyrja hvers vegna eigi að gefa afslátt í öðrum bönkum en Glitni. Það kemur þannig fram hjá slitastjórn gamla Landsbankans að stöðugleikaskatturinn sem þrotabúið eigi að greiða nemi 146 milljörðum. Það er sagt 5. ágúst. 2. október segist Ríkisútvarpið í fréttum sínum hafa heimildir fyrir því að slitastjórnin hafi lagt til að greiddir yrðu 14 milljarðar í stöðugleikaframlag.

Virðulegur forseti. Þýðir það að slitabú eigi að fá 90% afslátt frá stöðugleikaskattinum? Eða eiga kröfuhafarnir í Kaupþingi að halda hlutabréfunum í Arion banka?

Við köllum enn og aftur á það að hér verði lagðar fram upplýsingar og þingi og þjóð gerð grein fyrir því hvað er verið að höndla um hér í bakherbergjum og hvaða efnislegu röksemdir eru fyrir því að veita þá stóru afslætti frá stöðugleikaskattinum sem augljóslega er verið að vinna að, sérstaklega þegar horft er til þess (Forseti hringir.) að það er augljóslega mat hinna erlendu kröfuhafa, samanber tilboðið í nótt, að stöðugleikaskatturinn haldi og þess vegna reyna þeir með öllum ráðum að fá frá honum afslátt.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna